Spennandi hestadagar framundan

18.02.2011
Dagana 28.mars - 2.apríl munu hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Icelandair Group og Reykjavíkurborg standa fyrir glæsilegri vikulangri dagskrá þar sem íslenski hesturinn verður í aðalhlutverki. Dagana 28.mars - 2.apríl munu hestamannafélögin á höfuðborgarsvæðinu í samstarfi við Icelandair Group og Reykjavíkurborg standa fyrir glæsilegri vikulangri dagskrá þar sem íslenski hesturinn verður í aðalhlutverki. Hestamannafélögin Andvari, Gustur, Hörður, Fákur, Sörli, Sóti og Máni hafa skipulagt fjölbreytta dagskrá þar sem allir landsmenn ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Til að mynda verður boðið uppá kynbótaferð til Vesturlands þar sem Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri verður heimsóttur og boðið uppá kynbótadómara fyrirlestur, kynbótaferð til Suðurlands þar sem hrossaræktarbú undanfarinna ára verða heimsótt auk þess sem boðið verður upp á hestasýningu í Ölfusinu, Bíó Paradís mun bjóða upp á kvikmyndasýningar um íslenska hestinn, hestaleigurnar Íshestar, Laxness og Íslenski hesturinn verða með kynningar, hestasýningar í reiðhöllinni í Víðidal, glæsileg hestasölusýning og margt fleira.

Laugardaginn 2.apríl ættu hestamenn að taka sérstaklega frá því þá verður mikið um dýrðir. Dagskráin hefst með skrúðgöngu hestamannafélaganna upp Laugaveginn og sem leið liggur í Fjölskyldu- og Húsdýragarðinn í Laugardal. Þar verður sett upp „Hestaþorp“ með fjölbreyttri dagskrá, gangtegundasýning, járningasýning, hestateymingar, ýmislegt handverk verður boðið til sölu og margt fleira. Lokapunktur hátíðarinnar  verður ístöltið „Þeir allra sterkustu“  sem fer fram í Skautahöllinni í Reykjavík laugardagskvöldið 2.apríl. Þar munu margir af sterkustu knöpum og hestum mæta til leiks.

Í tengslum við hátíðina hefur hestamannafélagið Hörður ákveðið að halda Kvennatöltmót til styrktar Líf, sem er styrktarfélag Kvennadeildar Landspítalans. Mótið fer fram sunnudaginn 27.mars í reiðhöll Harðar og verður nánar auglýst síðar.