Sprettur hlýtur æskulýðsbikarinn!

25.10.2024

Hinn eftirsótti Æskulýðsbikar Landssambands hestamannafélaga (LH) er afhentur því félagi sem skarað hefur þótt fram úr í æskulýðsstarfi á árinu og hefur verið afhentur frá árinu 1996. Valið byggir á ársskýrslum æskulýðsnefnda félaganna, sem sendar eru inn til æskulýðsnefndar LH á haustin og hefur nefndin það verkefni að velja handhafa bikarsins og byggist valið á innsendum skýrslum.

Þetta er ein sú æðsta viðurkenning sem hægt er að hlotnast fyrir æskulýðsstarf félaganna og metnaðarfullt æskulýðsstarf skiptir gríðarlegu máli fyrir framtíð greinarinnar því þaðan kemur framtíðar grasrót félaganna. Æskulýðsstarfið er lang mikilvægasta starf hvers félags.

Í ár voru skýrslurnar 11 talsins. Það er alltaf skemmtilegt að lesa skýrslurnar og ekki skemmir þegar þær innihalda myndir úr starfinu. Um leið og nefndin þakkar fyrir innsendar skýrslur vill nefndin hvetja fleiri félög að senda inn skýrslur æskulýðsnefnda því þær gefa nefndinni annars vegar upplýsingar um hvað er um að vera hjá félögunum og hins vegar eru þær mikilvægur hugmyndasjóður fyrir önnur félög.

Það var virkilega gott að sjá í skýrslunum hve mikið og öflugt starf fer fram hjá félögunum. Það er alltaf gaman að sjá hvað félögin eru dugleg að bjóða upp á hina ýmsu viðburði fyrir æskuna, jafnt með og án hesta. Í skýrslunum mátti sjá öflugt og gott æfinga- og námskeiðahald hjá félögunum. Mörg félög stóðu fyrir reglubundnum æfingum, almennum reiðnámskeiðum, keppnisnámskeiðum og knapamerkjanámið virðist alltaf vera jafn vinsælt. Félagshesthúsum fer fjölgandi um landið, sem opnar möguleika þeirra sem ekki hafa bakland í hestamennsku að stunda íþróttina. Einnig gleður það okkur að sjá að félög eru að bjóða upp á sýningar þar sem æskan fær að njóta sýn. 

Áfram halda félögin að stíga skref í þá átt að líta á sig sem íþróttafélög og bjóða upp á markvissar æfingar, líkt og gert er í öðrum íþróttagreinum. Nefndin telur það skref í rétta átt fyrir íþróttina og að með þeirri stefnu muni greinin vaxa, vera samkeppnishæfari og dafnar til framtíðar.

Það er ávalt vandasamt verk að velja handhafa bikarsins, enda þarf ávalt að hafa í huga stærð hvers félags og meta starfið út frá stærð þess og meta fjölbreytileika starfsins með það í huga hvert bolmagn hvers félags. Það félag sem þykir hafa staðið upp úr í ár hefur verið með virkt starf allt frá stofnun félagsins og hefur mikill metnað verið lagður í starf undanfarin ár. Félagið hefur sífellt verið að bæta starf sitt, horfir mjög vítt á starfið og er umhugað um alla æsku félagsins, hvort sem um er að ræða áhugaknapa, keppnisknapa eða þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í sportinu. Félagið hefur staðið vel að nýliðin og hefur starfið vaxið og dafnað ár frá ári nú um nokkurra ára skeið. Árangur starfsins sést vel í fjölgun félagsmanna og mikillar nýliðunar.

Félagið stóð fyrir tugum viðburða fyrir alla aldurshópa að meðtöldum námskeiðum og æfingum ásamt því að reka félagshesthús. Þau byrjuðu starfið sitt strax á haustmánuðum sem gerir starf þeirra að heils vetrarstarfi. Sjá má í skýrslunni þeirra að þau eru dugleg að bjóða upp á fjölbreytta viðburði og hugsa út fyrir kassann. Meðal þess sem okkur fannst athyglisvert er að þau stóðu að skipulögðum reiðtúrum fyrir yngri kynslóðina, þar á meðal fyrir polla. Þau stóðu fyrir ferð þar sem gist var, riðið út og farið í leiki. Þau virkja krakkana með sér og eru annars vegar með barna- og unglingaráð og hins vegar með ungmennaráð sem opnar fyrir ungu kynslóðina að hafa áhrif á æskulýðsdagskránna. Það var meðal annars til þess að staðið var fyrir reiðnámskeiðferð eingöngu ætlað ungmennum. Ekki síður vakti athygli nefndarinnar að félagið uppfyllti óskir yngri félagsmanna og fóru með hóp yngri félagsmanna í ferð erlendis til að sjá hestasýningu sem krakkarnir söfnuðu fyrir með ýmiskonar fjáröflun.

Það sem nefndinni fannst ekki síst áhugavert og tekur undir með ungu kynslóð félagsins er að sjá önnur félög stofna yngri flokka ráð og myndum við, sem nú sitjum í æskulýðsnefnd gjarnan vilja láta draum þeirra rætast sem er að haldið verði Landsþing yngri flokka.

Félagið sendi inn vandaða og vel upp setta 18 blaðsíðna skýrslu. Félagið telur á annað þúsund félagsmenn þar sem um helmingur tilheyrir yngri flokkum félagsins og var stofnað árið 2012.

Handhafi Æskulýðsbikars Landssambands hestamannafélag 2024 er Hestamannafélagið Sprettur í Garðabæ og Kópavogi.

Til hamingju Sprettarar!