Spuni og Álfur setja punktinn yfir i-ið!

07.04.2012
Mynd Kolla Gr
Nú er allt að verða klárt fyrir veisluna miklu í Ölfushöllinni á laugardagskvöldið og þar mæta engar smá fallbyssur til leiks, en bæði Spuni frá Vesturkoti og Álfur frá Selfossi munu heiðra samkomuna. Nú er allt að verða klárt fyrir veisluna miklu í Ölfushöllinni á laugardagskvöldið og þar mæta engar smá fallbyssur til leiks, en bæði Spuni frá Vesturkoti og Álfur frá Selfossi munu heiðra samkomuna.

Spuna þarf vart að kynna, en þessi hæst dæmdi stóðhestur í heimi er ógleymanlegur öllum þeim sem sáu hann á LM í fyrra og samkvæmt þeim sem sáu til hans á æfingu í gærkvöldi verða tilþrifin all svakaleg og búast má við gæsahúð af sverustu sort um allan sal! Konungur kynbótabrautarinnar, Þórður Þorgeirsson, er mættur á klakann og mun að sjálfsögðu sýna Spuna á sinn einstaka hátt.
Ofurhesturinn Álfur frá Selfossi kemur líka fram og ku hann vera allverulega flottur enda alltaf augnakonfekt og gleðigjafi. Boðnir verða upp tollar undir báða þessa hesta á staðnum og munu þeir sem hreppa tollana jafnframt fá að fara í reiðtúr þessum súper gæðingum svo til mikils er að vinna! Einnig verður boðin upp tollur undir Arion frá Eystra-Fróðholti, en allur ágóði af uppboðinu sem og af sölu happdrættismiða rennur til góðs málefnis. Styrkinn í ár fær LAUF félag flogaveikra, en honum verður varið til þróunar og uppbyggingar íþrótta- og tómstundastarfs flogaveikra barna og unglinga.
Parkerssonurinn Bikar frá Syðri-Reykum verður með á veislunni, Dynssonurinn Sleipnir frá Kverná mætir sem og 9.5 töltararnir Hrímnir frá Ósi og Flygill frá Horni. Landsmótssigurvegarinn í barnaflokki, Glódís Sigurðardóttir, mætir með Kamban frá Húsavík, en þau voru eitt eftirminnilegasta par síðasta landsmóts og munu án efa gleðja sýningargesti. Heimsmeistarinn Anne Stine Haugen og hennar maður, Agnar Snorri Stefánsson, munu sýna þá Hrafndyn frá Hákoti og Greifa frá Holtsmúla og Viðar Ingólfsson mætir með glæsihestinn Má Orrason frá Feti.

 

Hægt verður að kaupa happdrættismiða á staðnum og rennur allur ágóði af sölunni í söfnunina til handa LAUF. Í verðlaun eru á annað hundrað folatollar og hestaferð á Löngufjörur með Óla Flosa svo eitthvað sé nefnt. Miðinn kostar aðeins 1.000 krónur.

Forsala aðgöngumiða stendur yfir til hádegis á laugardag og öruggast að tryggja sér í miða fyrir þann tíma. Húsið opnar kl. 19 og sýning hefst kl. 20. Rétt er að minna einnig á ungfolasýningu HS sem fram fer á sama stað fyrr um daginn.

Semsagt, heljarinnar hrossaræktardagur í Ölfushöllinni laugardaginn 7. apríl - Allir velkomnir!