Starfshópur heimsótti félagshesthúsið í Sörla

10.05.2023

Starfshópur um bætt aðgengi barna að hestamennsku óskaði eftir að fá að kynna sér félagshesthúsið í Sörla, var stjórn og starfsmönnum LH og fulltrúa Horses of Iceland boðið að slást í hópinn. Fór kynningin fram þann 3. maí síðastliðinn. Félaghesthús er frábær leið til að koma á móts við börn og unglinga sem vilja vera í hestum en hafa ekki bakland til þess. Hjá Sörla eru á hverri önn 12-14 þátttakendur sem mæta tvisvar í viku í félagshesthúsið. Þar geta þau ýmist leigt pláss fyrir eigin hest eða fengið lánaðan hest til þess að geta tekið þátt í starfinu.

Flestir þátttakendur hafa byrjað á lánshestum en síðar eftir því sem þau hafa þroskast í áhugamálinu, hafa þau keypt hest, leigt pláss fyrir hann í félagshesthúsinu og síðar farið að leigja pláss hjá vinum og kunningjum úr í hverfinu. Þessi hópur sem tekur þátt í starfinu hefur verið ákaflega virkur í öllu starfi félagsins bæði í æskulýðsstarfi innan Sörla sem og öðrum viðburðum. Þetta er ákaflega mikilvægt starf til þess að ýta undir nýliðun og auka aðgengi barna að hestaíþróttinni.

Í upphafi var félagshesthúsið í Sörla starfrækt í 20 hesta húsi og fengust hestar að láni hjá félagsmönnum. Fljótlega var þó sú aðstaða orðin of lítil og hafist var handa við að leita eftir hentugra húsnæði og voru þá hugmyndir um að setja félagshesthúsið inn í nýja reiðhöll sem verið er að reysa í Sörla. Í millitíðinni bauðst svo húsnæði sem hentar afar vel undir reksturinn og var þá haft samband við Hafnarfjarðarbæ um kaup á húsnæðinu, niðurstaðan var sú að Hafnarfjarðarbær á húsið en Sörli sér um reksturinn á því. Auk þess veitir Hafnarfjarðarbær styrk til verkefnisins árlega sem mætir kostnaði við utanumhald og til þess að hægt sé að hafa starfsmann í 50% stöðugildi við umsjón félagshesthússins.

Sörli býr einnig svo vel að vera í samstarfi við Íshesta um notkun á hestum fyrir félagshesthúsið. Þannig er auðvelt að para saman þátttakendur og hesta sem henta þeirra getu stigi. Þátttakendurnir eru alla jafna með sama hestinn allan veturinn. Félgashesthúsið sér þátttakendum fyrir reiðtygjum og festu þau nýlega kaup á 10 nýjum hnökkum sem henta vel í verkefnið. Þannig er líka hægt að tryggja að allir sitji við sama borð hvað varðar búnað. Flest koma þau þó með eigin hjálma og öryggisvesti og geta þau geymt þetta í hesthúsinu yfir veturinn.

Aðsókn í starfið hefur vaxið jafnt og þétt frá því að félagshesthúsið tók til starfa og skiptir þar miklu máli að ávallt sé tryggt að starfið í kringum félagshesthúsið sé vandað og faglegt. Í starfið sækja bæði börn  á aldrinum 9-18 ára með djúpstæðan áhuga á hestum en einnig önnur sem hafa ekki fundið sig í öðrum íþróttum eða hafa átt erfitt uppdráttar félagslega. Það er því mikilvægt að starfsfólkið hafi hæfni til að mæta þessum fjölbreytta hóp svo hann megi blómstra. Þarna fá þau tækifæri til þess að stíga sín fyrstu skref í hestamennsku ásamt því að læra að halda hest. Þá hefur reynslan sýnt að þegar fyrrum þátttakendur eru vaxnir upp úr starfinu og komnir á fullt í sinni sjálfstæðu hestamennsku eru þau ákaflega áhugasöm um að aðstoða í félagshesthúsinu. Þarna er því sannarlega verið að efla starf félagsins til framtíðar.

Forvarnargildi þess að taka þátt í uppbyggilegu barna- og unglingastarfi þar sem þátttakendum er kennd ábyrgð og samkennd er ótvírætt. Hestaíþróttin er krefjandi en á sama skapi einstök því til árangurs dugir ekki bara framtak einstaklingsins heldur þarf þátttakandinn að þróa með sér næmni og hæfileika til að fá það besta út úr hestinum og til þess að það sé hægt þarf að sinna honum af alúð og þekkingu. Þá eru fáar íþróttagreinar þar sem aldrei er kynjaskipt í keppnisflokka auk þess sem samgangur milli aldursflokka er mikill því oftar en ekki er keppt í öllum aldursflokkum á sama mótinu.

Sífellt fleiri hestamannafélög hafa sýnt því áhuga að starfrækja félagshesthús og eru um þessar mundir hafin vinna við það innan LH að útbúa leiðbeiningar um hvernig hægt sé að koma á fót slíkri starfsemi.

Starfshópurinn og aðrir gestir fundarins þakka Sörla kærlega fyrir kynninguna á þeirra góða starfi.