Stefnt að 100 milljón króna aukafjárveitingu til reiðvegamála

10.05.2021
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Guðni Halldórsson formaður LH með stóðhestinn Eld frá Torfunesi.

Undanfarið hafa hestamenn verið að kalla eftir auknu fé til reiðvegamála, bæði á opinberum vetvangi sem og í samtölum við ráðamenn. Það er því ánægjulegt að segja frá því að við undirritun sáttmála hestafólks og annarra vegfarenda og frumsýningu fræðslumyndbands um viðbragð hestsins í umferðinni síðastliðinn laugardag tilkynnti samgönguráðherra um fyrirhugaða aukafjárveitingu til reiðvegamála sem liggur fyrir Alþingi. Er þar um að ræða sértæka fjárveitingu að fjárhæð kr. 100.000.000,- sem kemur til afgreiðslu á þessu ári og næsta. Verða því framlög ríkissins til reiðvegamála kr. 125.000.000,- hvort ár.

Er þetta mikið ánægjuefni fyrir okkur hestamenn og mun reiðveganefnd LH funda á allra næstu dögum til að fara yfir hvernig þessari fjárveitingu verður sem best varið.