Stjörnufans á Ístölti þeirra allra sterkustu

03.04.2013
Sara Ástþórs sigraði á Dívu sinni 2012/Dalli
Ráslisti Ístöltsins á laugardagskvöldið er nú óðum að verða fullmótaður og nokkuð ljóst að áhorfendur verða ekki sviknir af þessari töltveislu sem framundan er.

Ráslisti Ístöltsins á laugardagskvöldið er nú óðum að verða fullmótaður og nokkuð ljóst að áhorfendur verða ekki sviknir af þessari töltveislu sem framundan er.

Skeiðknapi ársins, Sigurbjörn Bárðarson, mun koma með töltarann glæsilega Jarl frá Mið-Fossum. Þeirra samspil er orðið ansi slípað og gott og þeir munu án efa gera harða atlögu að Ístöltstitlinum.

Úr hópi meistaraknapa úr tölti í Meistaradeildinni má nefna Huldu Gústafsdóttur á Stórval frá Lundi og hennar ektamann Hinrik Bragason á Smyrli frá Hrísum.  Einnig þá kappa í Ölfusinu Viðar Ingólfsson og Vornótt og Þorvald Árna Þorvaldsson á Stjörnu frá Stóra-Hofi. Glæsihryssur báðar tvær en Viðar sigraði töltið í Meistaradeildinni í síðasta mánuði eftirminnilega á Vornótt.

Unga fólkið okkar í hestamennskunni á vitaskuld sína fulltrúa á svellinu en efnilegasti knapi síðasta árs, Ásmundur Ernir Snorrason kemur með Arð frá Enni, Sara Sigurbjörnsdóttir kemur með Svartni frá Miðsitju og Helga Una Björnsdóttir sigurvegari Svellkaldra kvenna, tekur þátt í stóðhestakynningunni með hestinn knáa úr eigin ræktun, Bikar frá Syðri-Reykjum.

Miðasalan er í fullum gangi í hestavöruverslunum hér sunnan heiða. Fyrir þá sem koma lengra að er hægt að kaupa miða í gegnum síma hjá LH í síma 514 4030 og gefa upp kortanúmer. Á öllum sölustöðum er hægt að fá tilboð: 1x aðgöngumiði + 2x happdrættismiði = 5.000 kr. Allur ágóði mótsins og happdrættisins rennur að venju til landsliðs Íslands í hestaíþróttum.

Minnum einnig á happdrættið – þar er aðalvinningurinn folatollur undir snillinginn Arion frá Eystra-Fróðholti, hvorki meira né minna!

Geta má þess í framhjáhlaupi að eftir Ístöltið verður dansleikur á SPOT í Kópavogi og munu áhorfendur fá aðgöngumiðann á ballið á 1.000 kr. ef þeir framvísa afrifu úr mótsskrá.