Stjörnum prýdd skemmtidagskrá

10.05.2012
Nú í vorinu þegar lóan syngur dirrindí og folöldin að fæðast, þá kemur einhvern veginn spenningur í hjarta hestamannsins og hann hugsar til Landsmótsins framundan.

Nú í vorinu þegar lóan syngur dirrindí og folöldin að fæðast, þá kemur einhvern veginn spenningur í hjarta hestamannsins og hann hugsar til Landsmótsins framundan. Alla þá dýrð í hestakosti sem þar verður að finna, fallega umgjörð stórmóts hestamanna og góða afþreyingu alla mótsdagana. Já, veislan verður sannarlega mikil upplifun og gaman að hugsa til þeirra sem nú upplifa sitt fyrsta landsmót.

Skemmtidagskrá mótsins hefur tekið á sig góða mynd og er það Helgi nokkur Björnsson sem hefur yfirumsjón með smíð hennar. Margir af þekktustu og vinsælustu skemmtikröftum og tónlistarmönnum þjóðarinnar munu koma fram og skemmta gestum Landsmóts.

Þar má nefna Fjallabræður, Ingó veðurguð og Hund í óskilum.

Fleiri tónlistarmenn verða kynntir síðar og vert að minna á að heljarinnar mikið Landsmótsball  verður haldið í Laugardalshöllinni laugardagskvöldið 30.júní og þar munu meðal annarra KK og Maggi Eiríks, SS Sól, Helgi Björns og Reiðmenn vindanna og Páll Óskar stíga á stokk.

www.landsmot.is