Stóðhestaveisla á Króknum

26.03.2013
Hrafn frá Efri-Rauðalæk og Baldvin Ari Guðlaugsson
Hin árlega Stóðhestaveisla á Sauðárkróki fer fram í þriðja sinn á miðvikudaginn kemur, kvöldið fyrir skírdag. Sýningin hefst kl. 20 og er miðaverð kr. 3.000 í forsölu en kr. 3.500 við innganginn.

Hin árlega Stóðhestaveisla á Sauðárkróki fer fram í þriðja sinn á miðvikudaginn kemur, kvöldið fyrir skírdag. Sýningin hefst kl. 20 og er miðaverð kr. 3.000 í forsölu en kr. 3.500 við innganginn. Uppselt hefur verið á sýninguna undanfarin ár þannig að vissara er að tryggja sér miða í tíma. Forsala er hafin á N1 í Borgarnesi, Staðarskála, á Blönduósi, Sauðárkróki, Hörgárbraut Akureyri og Húsavík. Bókin Stóðhestar 2013 fylgir aðgöngumiða og verður hún afhent við innganginn, en bókin, sem er 324 blaðsíður, inniheldur upplýsingar um rúmlega 270 stóðhesta á Íslandi.


Um fjörtíu frábærir stóðhestar eru væntanlegir á svæðið, bæði eldri og þekktari stórstjörnur í bland við ungar vonarstjörnur víðs vegar að. Meðal hesta sem eru væntanlegir má nefna hinn glæsilega Loka frá Selfossi ásamt afkvæmum, stjörnuna Hrafn frá Efri-Rauðalæk, Stefni frá Þjóðólfshaga, Molasoninn Kjark frá Skriðu sem gerði allt vitlaust á svellinu um daginn, hinn faxprúða Víking frá Ási,  Kristal frá Varmalæk, Blæ frá Miðsitju, Eldfara frá Stóru-Ásgeirsá, Huga frá Síðu, Eini frá Ytri-Bægisá, Hlyn frá Haukatungu 1, Kalmar frá Efri-Rauðalæk, Kunningja frá Varmalæk, Muninn frá Skefilsstöðum, Öngul frá Efri-Rauðalæk og Tý frá Bæ svo einhverjir séu nefndir. Fleiri hestar verða kynntir til leiks á morgun og þar er marga góða mola að finna.

Heiðurshestur sýningarinnar fyrir norðan er hinn eini sanni Andvari frá Ey og mun hann koma fram, auk þess sem afkvæmi hans munu heiðra sýninguna með nærveru sinni.

Hvetjum Norðanmenn til að fjölmenna á Krókinn og njóta veislunnar, allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir!

Stóðhestaveisla Suðurlands verður svo haldin í Ölfushöllinni á laugardaginn kemur, 30. mars nk. og verður hún kynnt síðar.

 

Mynd:
Hrafn frá Efri-Rauðalæk og Baldvin Ari Guðlaugsson. Lj.: Jón Björnsson