Stóðhestaveisla í Ölfushöll

04.04.2012
Hin árlega stórsýning stóðhestanna "Stóðhestaveislan" verður haldin í Ölfushöllinni á laugardaginn kemur, 7. apríl kl. 20. Þar munu koma fram á fjórða tug stóðhesta og afkvæma, auk þeirra ungfola sem sigrað hafa á ungfolasýningu HS fyrr um daginn. Hin árlega stórsýning stóðhestanna "Stóðhestaveislan" verður haldin í Ölfushöllinni á laugardaginn kemur, 7. apríl kl. 20. Þar munu koma fram á fjórða tug stóðhesta og afkvæma, auk þeirra ungfola sem sigrað hafa á ungfolasýningu HS fyrr um daginn.
 
Heiðurshestur sýningarinnar verður Þorri frá Þúfu, en meðal annarra hesta sem mæta munu á svæðið eru t.d. hinn stórspennandi Framherji frá Flagbjarnarholti sem vakið hefur gríðarlega athygli og sló í gegn á ístöltinu um sl. helgi, glæsilegur sonur Hágangs frá Narfastöðum og Surtseyjar frá Feti.

Frá Halakoti koma Álfasteinssynirnir Eyður og Oddsteinn ásamt hjónunum á bænum, Tígulás frá Marteinstungu er í fantaformi og mætir til leiks sem og Öræfingurinn Skuggi frá Hofi I, undan Aroni og heiðursverðlaunahryssunni Þrumu frá Hofi I.

Loki frá Selfossi heillaði Norðlendinga upp úr skónum á Sauðárkróki sl. laugardagskvöld og hann mætir að sjálfsögðu til leiks fyrir sunnan líka og kemur með afkvæmi sín með sér í fyrsta skipti. Einnig mætir afkvæmahópur undan Adam frá Ásmundarstöðum og þá lætur Aronssonurinn Stormur frá Herríðarhóli sjá sig.
Margar aðrar stórkanónur hafa einnig boðað komu sína og við munum halda áfram að kynna hestana á vefmiðlum á morgun.

Forsala miða er hafin hjá Ástund, Líflandi, Hestum og mönnum, Baldvini og Þorvaldi og N1 á Ártúnshöfða, í Hveragerði, á Selfossi og á Hvolsvelli. Miðaverð í forsölu er kr. 3.000, en kr. 3.500 við innganginn.

Glæsileg 370 blaðsíðna stóðhestabók með upplýsingum um 310 stóðhesta fylgir miðanum. Miðar á stóðhestaveisluna á Sauðárkróki sl. laugardag seldust upp í forsölu og urðu margir frá að hverfa, svo Sunnlendingar eru hvattir til að tryggja sér miða í tíma enda mikil stemming fyrir sýningunni og tilvalið að fara í páskabíltúr í Ölfusið, sjá flotta ungfola, fullt af stjörnustóðhestum og hitta skemmtilegt fólk.

Allir velkomnir!