Stóðhestavelta landsliðsins - næstu sex hestar

23.04.2020

Við kynnum til leiks næstu sex hesta sem eru í pottinum í stóðhestaveltu til styrktar landsliði Íslands í hestaíþróttum. 

Miðasala hefst á tix.is 1. maí og dregið verður úr seldum miðum í beinni útsendingu á facebooksíðu LH. Miðaverð er kr. 40.000, girðingagjald er ekki innifalið.

Útherji frá Blesastöðum 8,24. Útherji er ungur og upprennandi stóðhestur. Hann er hátt dæmdur klárhestur með 9,0 fyrir tölt, brokk, vilja og geðslag í kynbótadómi. Myndband af Útherja á WorldFeng.

Stormur frá Herríðarhóli 8,19. Stormur er margfaldur Íslands- og Landsmótsmeistari í tölti. Hann var Íslandsmeistari í tölti árin 2012, 2013, 2014 og 2016 og sigraði í tölti á Landsmóti árin 2014 og 2016. Myndband af Stormi á WorldFeng.

Vákur frá Vatnsenda 8,17. Vákur er upprennandi keppnishestur og var í þriðja sæti á Íslandsmóti í fjórgangi 2019.  Hann hefur hlotið í kynbótadómi 9,0 fyrir tölt, fet og fegurð í reið. Myndband af Vák á WorldFeng.

Sær frá Bakkakoti 8,62. Sær hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti árið 2008. Hann á fjölmörg hátt dæmd afkvæmi, hæst þeirra er Arion frá Eystra-Fróðholti. Myndband af Sæ á WorldFeng.

Kolbeinn frá Hrafnsholti 8,42. Kolbeinn er hátt dæmdur stóðhestur með 9,5 fyrir skeið og vilja og geðslag. Hann hefur átt farsælan keppnisferil í A-flokki og gæðingaskeiði. Myndband af Kolbeini á WorldFeng.

Jarl frá Árbæjarhjáleigu 8,78. Jarl hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi á landsmóti 2018. Hann var í verðlaunasæti í kynbótasýningu á þremur landsmótum í flokki 4ra vetra, 5 vetra og 7 vetra og eldri. Hann hefur átt farsælan keppnisferil í A-flokki, tölti, fimmgangi og gæðingaskeiði. Myndband af Jarli á WorldFeng.