Svaðalegar Svellkaldar framundan!

24.02.2009
Á laugardaginn kemur mun hið árlega ístöltsmót kvenna "Svellkaldar konur" sem haldið er á vegum Landssambands hestamannafélaga fara fram í Skautahöllinni í Laugardal í Reykjavík. Á laugardaginn kemur mun hið árlega ístöltsmót kvenna "Svellkaldar konur" sem haldið er á vegum Landssambands hestamannafélaga fara fram í Skautahöllinni í Laugardal í Reykjavík. Skráning hófst sl. fimmtudag og átti að standa þar til í gærkvöldi, en svo fór að öll 100 plássin fylltust á rúmum tveimur dögum og ljóst að áhuginn er gríðarlega mikill. Skráningin fór fram í gegnum rafrænt skráningar- og greiðslukerfi Hestamannafélagsins Gusts sem virkaði frábærlega og gefur tóninn varðandi framtíð mótaskráninga. Með slíku kerfi sleppa mótshaldarar við alla vinnu við innslátt, símtöl og rukkanir og munar um minna þegar unnið er að undirbúningi móta.

Keppt verður í þremur flokkum og er góð skráning í þá alla, þó sýnu mest í flokkinn "Meira vanar." Gríðarlega spennandi hestakostur er skráður til leiks og klárt mál að þarna verður hörkukeppni og flottar sýningar. Áætlað er að mótið hefjist upp úr kl. 17, en nánari dagskrá verður gefin út í vikunni.

Ráslistar hafa þegar verið gefnir út og sendir netmiðlum þannig að keppendur ættu að geta kynnt sér þá strax. Riðin verða B-úrslit í flokkunum "Meira vanar" og "Opnum flokki" og svo A-úrslit í öllum þremur flokkunum. Einnig verður glæsilegasta par mótsins valið úr hópi keppenda.

Aðgangseyrir er aðeins kr. 1.000, tilvalið fyrir hestafólk að gera sér dagamun og fjölmenna í Skautahöllina á laugardag til að fylgjast með flottum konum á víga hestum! Bara gaman! Miðasala mun fara fram við innganginn og allur ágóði af mótinu rennur óskiptur til íslenska landsliðsins í hestaíþróttum. Fylgist með nánari fréttum af Svellköldum konum á netmiðlum hestamanna á næstu dögum.

Aðalstyrktaraðilar mótsins eru: Lífland - Icelandair Cargo - Hertz - Toyota - Útfararstofa Íslands - Snyrtiakademían - Barki ehf - Kökuhornið og Kænan, auk fleiri sem m.a. gefa aukaverðlaun og styðja verkefnið með öðrum hætti.