Sýnikennsla FT-Norður vel heppnuð

10.02.2009
Frétt frá FT: FT – norður fékk aftur til liðs við sig þrjá reiðkennara og hélt annað sýnikennslukvöld í Reiðhöllinni á Svaðastöðum 21. janúar sl. Tekinn var upp þráðurinn frá sýnikennslunni sem haldin var í nóvember. Frétt frá FT: FT – norður fékk aftur til liðs við sig þrjá reiðkennara og hélt annað sýnikennslukvöld í Reiðhöllinni á Svaðastöðum 21. janúar sl. Tekinn var upp þráðurinn frá sýnikennslunni sem haldin var í nóvember. Þorsteinn Björnsson hóf sýninguna með hryssuna Þeklu frá Hólum og fór í það hvernig ætti að venja hross við reiðhús (reiðhöll),þannig að hesturinn væri óhræddur og sáttur. Þórarinn Eymundsson kom næstur inn á gólfið með hestinn Skáta frá Skáney og tók hann fyrir ábendingar og taumsamband. Hann fór yfir allar helstu ábendingar og samskipti sem við eigum við hestinn og gerði því góð skil.

Ísólfur Líndal tók við af Þórarni með hestinn Sindra frá Leysingjastöðum og tók hann fyrir þjálfunarstund á klárhesti. Mjög gaman var að fylgjast með þeim félögum þar sem Sindri er mjög efnilegur hestur, en hann var að stíga sín fyrstu töltspor og fór Ísólfur í það hvað maður ætti að þjálfa svona hesta lengi í einu.

FT-norður vill þakka öllum fyrir komuna og vonandi koma sem flestir á næstu sýnikennslu sem haldin verður nk. miðvikudagskvöld á Sauðárkróki kl. 20. Þar verður áherslan lögð á alhliðahestinn. Allir velkomnir, aðgangseyrir kr. 1.500, en kr. 1.000 fyrir skuldlausa FT félaga.

Á myndinni er Þórarinn Eymundsson á Tindi frá Varmalæk.