Sýning Hæfileikamótunar og U21 Landsliðsins

19.11.2024

Helgina 30. nóv - 1. des verður menntahelgi landsliðanna og hæfileikamótunar. Laugardagurinn verður helgaður kennslusýningum A landsliðsins en á sunnudeginum munu gestir fá innsýn inn í það öfluga afreksstarf sem unnið er innan LH.

Sýningin hefst kl 13 en þá mun hluti þátttakenda úr Hæfileikamótun koma fram með hestana sína og gefa áhorfendum tækifæri til að sjá hvernig vinnuhelgar Hæfileikamótunar fara fram. Þar verður meðal annars fjallað um vinnu við hendi og sætisæfingar sem og hvernig blanda má fimiæfingum inn í þjálfun gangtegunda til að bæta jafnvægið. Þá fá gestir einnig að kynnast því hvernig grunnurinn er lagður að skeiðinu, skeiðuppbyggingu og gangtegundaþjálfun. Í Hæfileikamótun er lögð er áhersla á að höfða til metnaðarfullra afreksknapa á aldrinum 14- 17 ára sem m.a. stefna á að keppa fyrir Íslands hönd í framtíðinni. Sigvaldi Lárus Guðmundsson mun stýra dagskránni en hann er yfirþjálfari Hæfileikamótunar.

Þar á eftir er komið að U21 hópnum til að láta ljós sitt skína. Hópurinn telur 14 knapa sem stefna öll á að komast á HM í Sviss. Árangur U21 liðsins í á HM í Hollandi 2023 var einkar glæsilegur, en liðið náði þá í 7 heimsmeistara titla og ein silfurverðlaun og komust allir keppendur á pall sem var hreint út sagt frábær árangur.

Við heyrðum í Heklu Katharínu Kristinsdóttur Landsliðsþjálfari U21.

Hverju mega áhorfendur búast við?

„Allir U21 árs knaparnir munu mæta á staðinn og margir þeirra koma á þeim hesti/hestum sem þeir stefna með á HM í Sviss 2025. Það munu koma fram fjórgangspör, slaktaumatölts pör, skeið pör, tölt pör og fimmgangs pör. Sýningin verður blanda af flottum skrautreiðar atriðum en þó er meirihlutinn í sýnikennslu formi þar sem ætlunin er að gefa innsýn í það hvað knaparnir eru að gera með sínum hestum til að undirbúa þá fyrir sumarið.“

„Mikilvægt er að hestarnir toppi á réttum tíma sem er á Íslandsmóti og eigi samt ennþá inneign til þess að sem bestur árangur náist í ágúst á Heimsmeistaramóti. Ég mun stjórna hverju atriði og útskýra vel og skilmerkilega hvað hver knapi er að gera með sínum hesti. Einnig er mikilvægt að áhorfandinn fái innsýn í það hvað landsliðsþjálfari þarf að sjá hjá pari (hestur og knapi) sem stefnir á svo stórt markmið.“ Segir Hekla.

Nú er liðið að koma fram saman í fyrsta sinn síðan hópurinn var valinn, hvernig eruð þið stemmd í verkefnið?

„Ég er orðin hrikalega spennt fyrir sýningunni og einnig eru knaparnir mínir mjög spenntir að leyfa áhorfendum að skyggnast inní þjálfunina og að leyfa gæðingunum sínum að spretta aðeins úr spori. Sýningin er mjög umfangsmikil og verður hver mínúta nýtt til hins ítrasta. Gestir geta gert ráð fyrir fróðlegri og skemmtilegri sýningu þar sem létt stemmning í bland við metnaðarfullar æfingar munu halda fólki við efnið í þá rúmlega klukkustund sem prógrammið mun taka og hvet alla hestamenn til að koma í reiðhöllina í Víðidal og sjá þessa flottu knapa bæði í U21 og Hæfileikamótun LH. Læra af þeim en ekki síst að hvetja þá til dáða inn í spennandi keppnistímabil.“