Tekið til kostanna í Skagafirði

21.04.2009
Komma frá Garði kemur fram á Tekið til kostanna. Knapi Hesta-Bjarni yngri.
Hin árlega stórsýning í Skagafirði, Tekið til kostanna, fer fram í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki um næstu helgi, dagana 24. til 26. apríl. Samhliða fer fram fyrsta kynbótasýning ársins. Nemendur og kennarar frá Hólaskóla munu brydda upp á nýjungum og hinar rómuðu kvöldsýningar verða á sínum stað. Hin árlega stórsýning í Skagafirði, Tekið til kostanna, fer fram í Svaðastaðahöllinni á Sauðárkróki um næstu helgi, dagana 24. til 26. apríl. Samhliða fer fram fyrsta kynbótasýning ársins. Nemendur og kennarar frá Hólaskóla munu brydda upp á nýjungum og hinar rómuðu kvöldsýningar verða á sínum stað.

Að venju stendur hátíðin í þrjá daga. Hún hefst með dómum kynbótahrossa klukkan tíu árdegis á föstudag og lýkur með sölusýningu reiðhesta, keppnishesta og kynbótahrossa á sunnudag. Hefst hún klukkan 14.00. Kvöldsýningar verða föstudag og laugardag.

Á kvöldsýningunum verða í boði fjölbreytt atriði. Má þar nefna skeiðkeppni Skeiðfélagsins Kjarvals, sem stofnað var í vetur. Eyþór Jónasson, framkvæmdastjóri Svaðastaðahallarinnar, lofar að þar verði öflugir vekringar á ferð.

Tólf starfandi tamningamenn í  Skagafirði og fimm úr Húnavatnssýslum munu leika listir sínar á völdum gæðingum. Einnig koma fram í sérstöku atriði þrír tamninga- og sýningamenn af gamla skólanum, skagfirskir. Það eru þeir Sigurbjörn Þorleifsson á Langhúsum, Símon bústjóri í Bæ (Bæjarstjórinn) og Ingimar Pálsson á Sauðárkróki. Ingimar tamdi meðal annars á sínum tíma hryssuna Perlu frá Reykjum sem er móðir þeirra Kröflu og Kveiks frá Miðsitju.

Riddarar Norðursins er starfandi karlaklúbbur í Skagafirði. Í honum eru þó tvær konur. Og fyrir því eru tvær ástæður: Önnur á peninga og hin kann að elda! Markmið klúbbsins er að hafa gaman að lífinu og hjálpa öðrum til þess líka. Riddarar Norðursins koma fram í sérstöku atriði með hetjutenórnum Alexander Kotroskinn, sem er frægur í Skagafirði og víðar. Rússneski framburðurinn er sagður ekta.

Frábærir töltarar koma fram. Má þar nefna hestagullin Kommu frá Garði og Nönnu frá Halldórsstöðum. Nanna er nú undir hnakk hjá Sölva Sigurðarsyni og fara sögur af henni nú hratt um landið. Einnig má nefna Gáska frá Sveinsstöðum og Feng frá Sauðárkróki. Hestar sem hafa staðið í fremstu víglínu á mótum vetrarins.

Einnig má nefna að afkæmi Mánadísar frá Torfunesi verða sýnd í sérstöku atriði. Í hópnum verða synir hennar og stóðhestarnir Máttur og Möttur. Sá síðarnefndi ku vera í mikilli uppsveiflu.

Það er því eftir ýmsu að slægjast fyrir hestamenn á Tekið til kostanna í Skagafirði um helgina.