Þátttaka íslenskra fyrirtækja á sölu- og sýningarsvæði HM 2023

15.02.2023

Horses of Iceland undirbýr þátttöku íslenskra fyrirtækja á sölu- og sýningarsvæði heimsmeistaramóts íslenska hestsins sem fram fer í Oirschot í Hollandi dagana 8.- 13. ágúst 2023. Íslenskum fyrirtækjum gefst þar tækifæri til að kynna sig og selja vörur og þjónustu meðan á mótinu stendur.

Heimsmeistaramótið er einn stærsti vettvangur íslenska hestsins um heim allan. Nítján þjóðir hafa keppnisrétt á mótinu og má búast við miklum fjölda gesta þá sjö daga sem það stendur yfir. Þetta er í þriðja sinn sem heimsmeistaramótið er haldið í Oirschot.

Líkt og þekkist á landsmóti hér heima er gert ráð fyrir stóru sölu- og sýningarsvæði þar sem fyrirtæki tengd hestamennsku eða úr öðrum greinum geta kynnt og boðið vörur sína og þjónustu til sölu. Horses of Iceland verður með stórt tjald og þar verður mikið líf og fjör yfir mótsdagana, eins og t.d. tónlistaratriði, matarsmökkun, kynningar og annað (nákvæm dagskrá er enn í vinnslu). Einnig verður Landssamband hestamannafélaga með aðstöðu í tjaldinu og IPZV (þýsku Íslandshestasamtökin) verður með dagskrá í tjaldinu.

Í tjaldinu fá nokkrir samstarfsaðilar Horses of Iceland að vera með kynningarbása. Áhugasamir aðilar eru beðnir að hafa samband á netfangið berglind@horsesoficeland.is eða í síma 511 4000 fyrir 6. mars nk.

 Nánari upplýsingar um mótið er að finna á vefsíðu þess: https://www.wc2023.nl/