Þátttökuréttur á Íslandsmóti fullorðinna og ungmenna

19.04.2021

Á landþingi LH 2020 voru gerðar nokkrar breytingar á reglugerð um Íslandsmót fullorðinna og ungmenna. Þátttökurétt eiga efstu pör á stöðulista í hverri grein en ekki eru gefin út lágmarkseinkunnir eins og áður var. Einkunnir pars gilda frá fyrra og núverandi keppnistímabili og í hringvallagreinum gilda einungis einkunnir úr T1, T2, V1 og F1. Stöðulistinn verður uppfærður vikulega fram að Íslandsmóti en lokastöðulistinn sem gildir inn á Íslandsmót verður gefinn út 5 dögum fyrir mót skv. reglugerðinni. Stöðulistann, eins og hann liggur fyrir hverju sinni, má finna á vef LH undir flipanum mótahald.

Fjöldi þátttakenda í fullorðinsflokki er 30 í hringvallagreinum, gæðingaskeiði og 100 m. skeiði og 20 í 150 og 250 m. skeiði.

Fjöldi þátttakenda í ungmennaflokki er 20 í hringvallagreinum, 15 í gæðingaskeiði og 100 m. skeiði og 6 í 150 og 250 m. skeiði.

Pör sem keppa til verðlauna um samanlagðan sigurvegara þurfa að vera á stöðulista í a.m.k. einni grein en eiga jafnframt skráðan árangur í öðrum greinum sem telja til samanlagðra verðlauna og geta einnig skráð í þá grein.

Árangur í yngri flokkum á árinu á undan gildir í eldri flokki hafi knapi færst á milli aldursflokks á árinu. Þannig geta þeir sem fæddir eru 1999 átt árangur í ungmennaflokki frá árinu 2020 sem gildir í fullorðinsflokki árið 2021 og þeir sem fæddir eru 2003 geta átt árangur í unglingaflokki frá árinu 2020 sem gildir í ungmennaflokki á þessu ári.

Flokkar fullorðinna og ungmenna ríða forkeppni saman en úrslit eru í hvorum flokki fyrir sig.

Reglugerð um Íslandsmót má finna hér.

Stöðulista fyrir Íslandsmót má finna hér.

Íslandsmót fullorðinna og ungmenna 2021 verður haldið á Hólum í Hjaltadal dagana 30. júní til 4. júlí. Hestamannfélögin á Norðvestur- og Norðurlandi munu halda mótið í sameiningu.