Þórarinn efstur í fimmganginum

09.08.2017
Þórarinn og Narri / Krijn Buitelaar

Þriðjudagur og miðvikudagur á HM í Hollandi fóru í forkeppnir í fjórgangi og fimmgangi, auk sýninga kynbótahrossa sem standa yfir fram undir sólsetur, svo tíminn er vel nýttur hér á glæsilegum keppnisvöllum svæðisins í Oirschot.

Okkar fólki gekk vel í fjórganginum og til að mynda er Gústaf Ásgeir Hinriksson efstur í ungmennaflokknum á Pistli frá Litlu-Brekku og Anna Bryndís Zingsheim er fimmta svo þau ríða bæði A-úrslitin á laugardag.

Í fullorðinsflokki voru fjórir keppendur frá Íslandi og efstur þeirra varð Ásmundur Ernir Snorrason á Speli frá Njarðvík í þriðja sæti. Skammt undan í fimmta sæti er svo Guðmundur Fr. Björgvinsson á Straumi frá Feti. Þeir tveir fara beint í A-úrslit á sunnudaginn. Jafnir í 8.-9. sæti eru svo þeir Jakob Svavar Sigurðsson á Gloríu frá Skúfslæk og Jóhann Rúnar Skúlason á Finnboga frá Minni-Reykum og eiga þeir því sæti í B-úrslitunum á laugardag.

Opnunarhátíð mótsins fór fram í dag og var hún mjög hátíðleg þar sem allir þátttakendur klæddust sínum liðsbúningum og gengu inn á leikvanginn undir þjóðfána hvers lands.