Þriðji dagur Landsmóts

04.07.2024

Þá er umhleypingarsömum þriðjadegi Landsmóts lokið. Dagurinn hófst á Meistaraflokki í slaktaumatölti þar sem Ásmundur Ernir Snorrason og Hlökk frá Strandarhöfði áttu glæsilega sýningu og enduðu efst með 8,50 í einkunn. Þar á eftir hófst milliriðill í barnaflokki og líkt og við var að búast eftir sérstaka forkeppni sýndu okkar yngstu knapar að þau eru sannarlega með sitt á hreinu og voru margar stórglæsilega sýningar. Linda Guðbjörg Friðriksdóttir og Sjóður frá Kirkjubæ standa efst eftir milliriðlana með 8,85 en rétt á eftir þeim koma þau Viktoría Huld Hannesardóttir og Þinur frá Enni með 8,82. Elimar Elvarson og Salka frá Hólateigi sem komu efsti inn í milliriðlana eru þriðju með 8,76 í einkunn.

Eftir hádegið var komið að milliriðli í ungmennaflokki, þar voru margar flottar sýningar og nokkrar sviptingar urðu á röðun efstu knapa miðað við stöðuna eftir forkeppni. Efst eftir daginn í dag eftir glæsilega og jafna sýningu eru þau Védís Huld Sigurðardóttir og Ísak frá Þjórsárbakka með 8,75 í einkunn.

Þá var komið að keppni í fimmgang F1. Þar var það Jón Ársæll Bergmann sem átti bestu sýningu kvöldsins á Hörpu frá Höskuldsstöðum og hlutu þau 7,33. Gaman er að minnast á það að Jón Bergmann er í ungmennaflokki en stingur hér af marga reynslu meiri knapa og leiðir inn í A úrslit.

Kvöldinu lauk svo á kynbótabrautinni þar sem keppni í 250m og 150m skeið fór fram. Rétt eftir að keppni fór af stað opnuðust himnarnir og fengu keppendur og gestir ágætis skvettu yfir sig. Átta knapar af þrettán náðu gildum sprettum í fyrstu tveimur umferðunum og enginn í tvígang. Þeir Gústaf Ásgeir Hinriksson og Sjóður frá Þóreyjarnúpi leiða á tímanum 22,01 og á hæla þeirra koma Sigurstein Sumarliðason og Krókus frá Dalbæ á tímanum 22,02.

Í 150m skeiðinu var einnig mikil spenna og margir fínir sprettir. Efstir eftir fyrstu tvo sprettina eru þeir Konráð Valur Sveinsson og Kjarkur frá Árbæjarhjáleigu II á tímanum 13,88 en þeir settu nýtt Íslandsmet á sömu braut á Reykjarvíkurmeistaramótinu í Júní.