Tillaga til FEIF vegna stanga með tunguboga

09.05.2014

Í morgun sendi stjórn LH frá sér bréf til FEIF með tillögu um að banna alla tunguboga með vogarafli í keppni og kynbótasýningum. Bréfið er svohljóðandi:

Reykjavík 9. maí 2014

Til stjórnar FEIF
co/Gunnars Sturlusonar forseta

Efni: Tillaga til stjórnar FEIF vegna  niðurstöðu  rannsókna á notkun tunguboga í keppni og kynbótasýningum

Stjórn Landsambands hestamannafélaga skorar á stjórn FEIF að setja nú þegar á bannlista alla tunguboga með vogarafli þannig að þessi búnaður verði ekki notaður í keppni og kynbótasýningum frekar á þessu ári.

Umræða um þennan búnað verði í kjölfarið tekin upp á haustfundi FEIF og í framhaldi af því á aðalfundi FEIF.

LH telur með öllu óásættanlegt að þessi búnaður sé í notkun í keppni, á viðburðum og kynbótasýningum í kjölfar niðurstöðu rannsókna Dr. Sigríðar Björnsdóttir og tölfræðilegrar úttektar Þorvaldar Kristjánssonar kynbótadómara og kennara við LBHÍ á þeim.  Þá staðfesta gögn úr nýlegri rannsóknir í Svíþjóð á þessum sama búnaði í keppni og sýningum á íslenskum hestum samskonar áverka.

Í lögum og reglum LH og FEIF er skýrt tekið fram að hesturinn eigi alltaf að njóta vafans og velferð hans höfð í fyrsta sæti. Ekki megi nota neinn þann búnað í keppni og sýningum sem sé í andstöðu við þau markmið/geti ógnað þeim markmiðum. Með hliðsjón af því og með vísan til almennra dýraverndarsjónarmiða telja undirritaðir aðilar að FEIF sé skylt að banna þennan búnað þar til sýnt verður fram á hið gagnstæða við notkun hans, þ.e. að hann sé hestvænn.

Fyrir hönd stjórnar LH,

Haraldur Þórarinsson 
formaður