Tilnefning LH til íþróttamanns ársins 2010

20.12.2010
Sigurbjörn Bárðarson og Stakkur frá Halldórsstöðum. Mynd:Jens Einarsson.
Í ár erum við hestamenn í einstakri stöðu þegar kemur að tilnefningu til íþróttamanns ársins 2010, en maðurinn sem í ár hefur staðið hvað mest í eldlínunni í heimi hestaíþrótta er 58 ára að aldri og 45 ár eru síðan hann vann sitt fyrsta mót. Í ár erum við hestamenn í einstakri stöðu þegar kemur að tilnefningu til íþróttamanns ársins 2010, en maðurinn sem í ár hefur staðið hvað mest í eldlínunni í heimi hestaíþrótta er 58 ára að aldri og 45 ár eru síðan hann vann sitt fyrsta mót.

Tilnefndur er af hálfu Landssambands hestamannafélaga afreksknapinn Sigurbjörn Bárðarson úr hestamannafélaginu Fáki, sem hefur unnið fleiri sigra og sett fleiri met en nokkur annar íslenskur hestamaður. Hann hefur sýnt fram á að aldur er afstæður og er sannarlega fyrirmynd allra sem vilja stunda íþróttir til þess að viðhalda heilsu og hreysti.

Sigurbjörn hefur með mikilli elju og faglegri ástundun náð frábærum árangri á árinu 2010:

1. Hann var þrefaldur Íslandsmeistari í skeiðgreinum, sigraði bæði 150m og 250m skeið ásamt gæðingaskeiði.

2. Í ár tvíbætti hann eigið met í 150m skeiði og á því besta tímann sem nokkurn tíma hefur verið rafrænt tekinn, eða  13.98 sek.

3. Sigurbjörn er í 1.sæti á heimslista FEIF (alþjóðasamtök íslenska hestsins) í 150m skeiði.

4. Hann  sigraði 150m skeið á fjórum stærstu mótum ársins.

5. Auk þess að vera nánast ósigrandi í skeiðgreinum vann hann stærsta gæðingamót landsins fimmta árið í röð, A-flokk gæðinga á metamóti Andvara á hestinum Stakki frá Halldórsstöðum.

6. Sigurbjörn vann Meistaradeildina í hestaíþróttum annað árið í röð þar sem keppt er í níu greinum.

7. Á Uppskeruhátíð hestamanna var hann valinn íþróttaknapi ársins, skeiðknapi ársins og knapi ársins. Aldrei fyrr hefur sami knapi verið þrefaldur sigurvegari á hátíðinni.

Sigurbjörn er og hefur verið bindindismaður alla sína ævi og kemur einstaklega vel fyrir utan vallar sem innan, prúður og háttvís. Hann er sérlega glæsilegur talsmaður hestaíþróttarinnar og hefur afsannað allt sem haldið hefur verið fram um heppilegan aldur keppnismanna. Hann sýnir og sannar að keppnisíþróttir, sem og aðrar íþróttir, eru fyrir alla og á öllum aldri.