TÖLTFIMI - LEIÐARI

09.04.2013
Töltfimi var kynnt til sögunnar síðastliðið haust sem hugsanleg ný keppnisgrein í hestaíþróttum. Hún byggir á hugmyndum Reynis heitins Aðalsteinssonar um keppni í tölti þar sem þjálfun, undirbúningur og reiðmennska eru undir smásjá. Hópur áhugasamra hestamanna hefur unnið óformlega að mótun leiðara fyrir Töltfimina undanfarna mánuði.

Töltfimi var kynnt til sögunnar síðastliðið haust sem hugsanleg ný keppnisgrein í hestaíþróttum. Hún byggir á hugmyndum Reynis heitins Aðalsteinssonar um keppni í tölti þar sem þjálfun, undirbúningur og reiðmennska eru undir smásjá. Hópur áhugasamra hestamanna hefur unnið óformlega að mótun leiðara fyrir Töltfimina undanfarna mánuði. Nokkrar prufur hafa verið gerðar í keppni, bæði hér heima og erlendis. Sá leiðari að Töltfiminni sem hér birtist er nýjasta útgáfa, en tekið skal fram að hann verður í mótun allt þetta ár. Helsta breytingin í þessari útgáfu er að eftur fyrstu umferð, Hraðabreytingar, er hægt niður á fet, skipt um hönd og hesturinn undirbúinn fyrir aðra umferð, sem er Hraðabreytingar. Að öðru leyti er leiðarinn í meginatriðum eins og sú útgáfa sem send hefur verið nokkrum einstaklingum og hestamannafélögum sem eru að undirbúa keppni í Töltfimi.

.............


TÖLTFIMI

Keppni í þjálfun og reiðmennsku


MARKMIÐ TÖLTFIMINNAR:

Markmið Töltfiminnar er að knapinn geti sýnt fram á að hesturinn sé vel þjálfaður og rétt upp byggður samkvæmt hinum „klassísku þjálfunarstigum“.

ÞJÁLFUNARSTIGIN

1. Slakur (laus við spennu)
Hesturinn er rólegur, óhræddur, vöðvar og vöðvakerfi fjaðrandi og án stífni. Hesturinn er lágreistur, mjúkur og frjáls í hreyfingum.

2. Taumsamband, taktfesta - jafn hraði
Hesturinn hreyfir sig með jöfnum hrynjanda hreyfinganna. Létt taumsamband og samhæfni í ábendingum.

3. Sókn áfram (vilji, samvinna)
Hesturinn sættir sig við leiðtogahluverk knapans og sækir fram viljugur og ánægður hverja þá leið sem knapinn beinir honum.

4. Hesturinn er samspora (stilltur beint)
Hesturinn er jafnsterkur (enginn misstyrkur), jafnvígur til beggja handa, hægri aftur fótur fylgir í sporaslóð hægri fram fótar og vinstri afturfótur í spora slóð vinstri fram fótar. Hesturinn getur hreyft sig með jöfnum hreinum takti á hring bæði til hægri og vinstri.

5. Fjaðurmagn, spyrna - við taum
Hesturinn sækir áfram og er eftirgefanlegur, með hnakkabeygju, og í stöðugu, mjúku taumsambandi við hendur knapans. Rétt reising fyrir viðkomandi gangtegund.

6. Söfnun
Hesturinn hreyfir sig með frjálsari framhluta, hærrri hreyfingum og meira fjaðurmagni vegna aukinnar burðargetu aftur fótanna.

 

VÖLLURINN:
Völlurinn er átta á rétthyrndum velli, 20x40m eða 20x60m. Skammhliðar eru hálfur 20 metra baugur. Við „hringpunkt“ er skipt yfir allan völlin eftir beinni skábraut. Skábrautir krossast á miðju vallar (X). Út frá X-inu eru riðnir tveir átta metra baugar til hvorrar handar. Reiðleiðir eru merktar með kalki á reiðgólfinu. Keppendur ríða eftir merktum reiðleiðum (línu) og er hesturinn stilltur eftir reiðleiðinni hverju sinni. Keppnin skiptist í fjögur verkefni: 1 Fegurðartölt, 2 Hraðabreytingar, 3 Riðnir baugar, 4 Hægt tölt.

FYRSTA UMFERÐ/FEGURÐARTÖLT:
Hesturinn er frjáls í fasi á þeim kjörhraða hestsins þar sem mýkt og fegurð töltsins nýtur sín best (milliferð plús/mínus).

Knapinn hefur keppni á miðri skammlið. Hann skal undirbúa hestinn hálfan til einn hring á fyrstu sporaslóð (allur völlurinn ysta sporaslóð) áður en hann hefur keppni. Hann gefur til kynna með höfuðhneigingu á miðri skammhlið að sýning hans sé hafin. Taumhaldið skal vera létt, höfuð- og líkamsburður frjáls og spennulaus. Dillandi tagl. Sóst er eftir frjálsu fasi, hreinum takti, mýkt og jafnvægi. Knapinn ríður eftir merktri reiðleið. Hesturinn skal vera beinn á skábrautum og rétt stilltur á skammhliðum.

ÖNNUR UMFERÐ/HRAÐABREYTINGAR:
Hesturinn sé viljugur og fús og svari af næmi, spennulaus og sáttur, hvetjandi og hamlandi ábendingum.

Þegar fyrstu umferð lýkur við miðja skammhlið hægir knapinn niður á fet. Hann nýtir það sem eftir er skammhliðar til að skipta um hönd og undirbúa hestinn fyrir hægt tölt. Riðið er frá miðri skammhlið á hægu tölti eftir merktri reiðleið. Á skábrautinni til hvorrar handar, við hringpunkt, hefst hraðaaukning frá hægu og upp í röska milliferð að X-i. Upphröðun skal vera með jöfnum mjúkum stíganda. Hesturinn gangi fús fram og lengi og stækki skrefin án þess að flýta sér. Áhersla er lögð á takt, mýkt og fjaðurmagn. Hesturinn sé fasmikill og frjáls. Við X hefst niðurhæging, knapinn hægir ferðina með mjúkum hníganda þar til hann er kominn á hægt tölt við næsta hringpunkt (fyrir næstu beygju). Í niðurhægingunni er leitast við að virkja afturhluta hestsins, hann svari ábendingum frá sæti, sé léttur við taum, spennulaus og sáttur, mjúkur í hálsi og hnakka.

ÞRIÐJA UMFERÐ/RIÐNIR BAUGAR:
Hesturinn gengur fús hvaða leið sem knapinn beinir honum, hann er mjúkur og sveigjanlegur, jafnvígur á báðar hliðar og í jafnvægi. Hesturinn sé rétt stilltur á reiðleiðinni og gangi í réttum takti á báðar hendur. Lögð er áhersla á jafnan takt á vinnuraða á tölti.

Þegar fyrstu umferð lýkur við miðja skammhlið hægir knapinn niður á fet. Þegar knapinn kemur út úr beygjunni (við hringpunkt) setur hann hestinn upp á vinnuhraða á tölti. Við X ríður knapinn inn á baug. Hafi knapinn endað verkefni 2 upp á hægri hönd skal hann byrja að ríða hægri baug. Riðnir eru tveir 8 metra baugar til hvorrar handar eftir merktri reiðleið. Hesturinn skal vera á réttum takti, rétt stilltur eftir reiðleiðinni, sáttur og mjúkur. Sampil gott. Við næsta hringpunkt hægir hann hestinn niður á fet og byrjar að undirbúa hestinn fyrir síðast umferðina, sem er Hægt tölt. Hesturinn skal vera kominn á hægt tölt á miðri skammhlið.

FJÓRÐA UMFERÐ/HÆGT TÖLT – HESTURINN SJÁLFBERANDI:

Hesturinn gengur sjálfberandi á hægu tölti á jöfnum hraða og takti, spennulaus og dillandi, sáttur í beisli. Hesturinn gengur eftir merktri reiðleið, beinn á skábrautum og rétt stilltur á skammhliðum.

Riðið er eins hægt og hesturinn hefur eiginleika til, án þess að það bitni á hreinum takti, mýkt og hrynjanda. Sóst er eftir útgeislun og glæsileika. SÉRSTÖK ÁHERSLA er lögð á að taumhald sé létt. Hesturinn sé mjúkur í hálsi og hnakka, beri sig uppi með afturfótunum og lyfti baki og herðum í fallegum höfuðburði, sem hæfir sköpulagi hans og getu.

SKYLDUÆFING Á FJÓRÐU UMFERÐ: Áhersla er lögð á það alla keppnina að taumhald sé létt og hesturinn sé sjálfberandi. Í fjórða verkefni, til að undirstrika léttleikann, skal knapinn losa greinilega um tauminn einu sinni á hvorri skábraut við X tvær til fjórar hestlengdir þannig að greinilegt sé að hesturinn beri sig uppi sjálfur, haldi formi, réttum hraða og takti. Ekki er ætlast til að knapi breyti ásetu eða gefi tauminn slakan líkt og í T2.

ÚRSLITAKEPPNI:
Fimm keppendur keppa til úrslita og ríða verkefnið aftur, einn og einn í einu. Einkunn í úrslitum ræður röð keppenda til verðlauna.
(Ef aðstæður leyfa skulu keppendur ríða á feti í „collect ring“ við enda vallar. Einn keppandi fer inn á völlinn og ríður fyrstu umferð og fer síðan aftur í CR. Næsti keppandi ríður inn á völlinn, og svo koll af kolli.)

Einn dómari dæmir keppnina og skal hafa aðstoðarmann/ritara. Dómari skal hafa dómararéttindi í hestaíþróttum og vera knapi á meistarastigi í hestaíþróttum eða hafa óumdeildan feril að baki sem knapi og reiðmaður. Dómari gefur einkunn eftir hverja umferð/verkefni. Þulur situr við hlið dómara og les upp einkunnir jafnóðum. Hann skal hafa reynslu sem reiðmaður þannig að hann geti lýst keppninni faglega um leið og hún fer fram. Eftir að keppandi hefur lokið keppni rökstyður dómari einkunnir sínar.

Einkunnir eru gefnar í heilum og hálfum á skalanum 1-10. Gefin er ein einkunn fyrir hverja umferð/verkefni. Það sem liggur til grundvallar hverri einkunn eru taktur, samspil og form, og önnur atriði sem koma fram í þjálfunarskalanum.

Einkunn 9 -10 > Óaðfinnanlegt eða lítt aðfinnanlegt
Einkunn 8 - 9 > Mjög gott
Einkunn 7 - 8 > Gott
Einkunn 5 - 7 > Sæmilegt
Einkunn 3 - 5 > Lélegt
Einkunn 0 - 3 > Mjög lélegt

Til frádráttar:

1 Taktur: Augljósir taktgallar. Hesturinn er hliðstæður, klárgengur, ójafn, hoppar upp á fótinn og svo framvegis.

MIKILVÆGT: Fari hesturinn ekki á réttum takti er hámarkseinkunn 5,0. Önnur frávik er mat dómara hverju sinni.

2 Samspil: Grófar ábendingar. Hesturinn misskilur ábendingar og svarar þeim ekki, eða svarar þeim með mótþróa. Þungt, hvíldarlaust taumsamband. Spenna og stífni, bæði hjá manni og hesti. Önnur frávik er mat dómara hverju sinni.

3 Form: Heildarmynd hests og knapa endurspeglar vanlíðan og/eða ónógan undirbúning. Yfirlína röng, hesturinn ekki við taum, þ.e. spenna í yfirlínu og hryggsúlu, hesturinn er ekki í burði, er niðri í herðum, ofreistur (hjartarháls). Önnur frávik er mat dómara hverju sinni.

4 Reiðleiðir: Knapinn á í erfiðleikum með að fá hestinn til að fylgja merktum reiðleiðum. Frávik er mat dómara hverju sinni.

Reglur um beislabúnað, járningar og fótabúnað eru FIPO.