Top Reiter höllin á Akureyri vígð

20.04.2009
Ásgeir Herbertsson og Herbert „Kóki“ Ólason færðu Létti gjafir. Ljósm:AGG
Það voru börn og unglingar í hestamannafélaginu Létti sem riðu fyrstir í hús á formlegri vígslu nýrrar reiðhallar á Akureyri og þótt það vel við hæfi. Á eftir riðu fánaberar í salinn og með þeim þingmennirnir Kristján Þór Júlíusson og Steingrímur J. Sigfússon, landbúnaðarráðherra, og formaður Léttis, Erlingur Guðmundsson. Það voru börn og unglingar í hestamannafélaginu Létti sem riðu fyrstir í hús á formlegri vígslu nýrrar reiðhallar á Akureyri og þótt það vel við hæfi. Á eftir riðu fánaberar í salinn og með þeim þingmennirnir Kristján Þór Júlíusson og Steingrímur J. Sigfússon, landbúnaðarráðherra, og formaður Léttis, Erlingur Guðmundsson.

Sigfús Helgason, talsmaður framkvæmdanefndar reiðhallarinnar, segir að vígslan hafi tekist afar vel. Húsið hafi verið stútfullt. Á milli 800 til 900 manns með knöpum og aðstoðarfólki.

„Maður er varla farinn að trúa því að þetta hafi átt sér stað í reiðhöllinni okkar hér á Akureyri. Þarna rættist langþráður draumur og maður er ekki alveg viss um hvort maður á að trúa því að það sé satt. Við í framkvæmdanefnd reiðhallarinnar erum ákaflega stolt og þakklát. Sérstaklega vil ég nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim gestum sem komu til okkar með hesta til að taka þátt í sýningunni og gerðu hana veglegri,“ segir Sigfús.

Óhætt er að taka undir að sýningaratriðin voru mörg glæsileg. Einkum snart það hjörtu margra þegar unglingar riðu í salinn á þremur höfðingjum úr röðum stóðhesta: Andvara frá Ey, Galsa frá Sauðárkróki og Gusti frá Hóli II. Allir eru þessir hestar að hluta í eigu Eyfirðinga. Hestarnir fengu lárviðarkrans um hálsinn og voru hylltir ásamt ræktendum þeirra og forsvarsmönnum. Sveinbjörn Eyjólfsson, aðalþulur sýningarinnar, fór á kostum að vanda og vöktu margar athugasemdir hans mikla kátínu.

Þá skal þess sérstaklega getið að reiðhöllin fékk glæsilega gjöf frá þeim feðgum Herberti „Kóka“ Ólasyni og Ásgeiri Herbertssyni: Hljóðkerfi í húsið og tíu beisli og hnakka sem ætlaðir eru til æskulýðsstarfa og reiðkennslu hjá Létti. Kóki var sæmdur gullmerki Léttis og Ásgeir silfurmerki. Samkvæmt samkomulagi mun reiðhöllin heita Top Reiter höllin næstu tvö árin.

Top Reiter höllin er stærsta reiðhöll landsins og komu kostir stærðarinnar glögglega í ljós við vígsluna.
„Við erum auðvitað afskaplega ánægð með viðbrögð knapa og sýnenda, sem voru einróma um að aðstaðan til sýninga í Top Reiter höllinni sé frábær. Þetta er stærsta reiðhöll landsins. Sýningarsvæðið, það er að segja reiðgólfið, er bæði breiðara og lengra en í nokkurri annarri reiðhöll á landinu. Knapar voru sammála um að það væri á allan hátt auðveldara og betra að sýna hrossin í þessu góða rými.

Reiðhöllin hefur verið í notkun síðan um áramót og hefur þegar haft mikil áhrif á hestamennskuna hér á Akureyri. Það er engin spurning að tilkoma hennar mun gjörbylta allri starfseminni: Sýningahaldi og keppni ýmiskonar, frístundaiðkun að vetrarlagi, og ekki síst reiðkennslunni og æskulýðsstarfinu, sem er auðvitað það mikilvægasta,“ segir Sigufús Helgason.