TREC kynningar á nýju ári

20.12.2013
TREC er spennandi ný grein sem er að byrja að ryðja sér til rúms hér á landi. Greinin er skemmtileg, spennandi og hestvæn og byggir á almennri hestamennsku. Mikil fjölbreytni einkennir TREC og ekki síst traustið milli manns og hests, í rauninni hestaleikur.

TREC er spennandi ný grein sem er að byrja að ryðja sér til rúms hér á landi. Greinin er skemmtileg,  spennandi og hestvæn og byggir á almennri hestamennsku. Mikil fjölbreytni einkennir TREC og ekki síst traustið milli manns og hests, í rauninni hestaleikur.  Keppni í TREC samanstendur af þremur þáttum og miðar að því að finna sterkasta parið út úr þessum þáttum í lokin. Auðvelt er að vera með einhverja af þessum þáttum eða alla saman eftir aðstæðum og tíma. Verið er að leggja lokahönd á þýðingu á reglupakkanum og samræma reglurnar eftir atvikum íslenskum aðstæðum.

Fyrst ber að nefna ratleik,sem eftir á að útfæra betur.  Keppendur fá að skoða kort af fyrirfram ákveðinni leið í um 20 mínútur fyrir start og færa punkta yfir á sitt eigið kort sem þeir hafa með sér ásamt  áttavita. Þeir þurfa að koma við á ákveðnum stöðum á leiðinni, 8 stöðvum eða svo. Leiðin er mislöng á milli stöðva og gefin upp áætlaður meðalhraði á milli stöðva. Vegalengd og tími getur verið allt frá 20 til 35 km sem tekur ca. 4-6 tíma í reið. Það eru dómarar á eftirlitsstöðvunum sem fylgjast með að allir komi við og að allt sé í lagi með knapa og hest.

Annar hlutinn felst í þrautabraut sem er á bilinu 1000-1500 m að lengd og fjöldi þrauta er 16.  Fjölbreytileiki þrauta og uppsetninga þeirra er mikill en til eru a.m.k. 32 skilgreindar þrautir s.s. að fara yfir brú, opna hlið, stökkva yfir hindrun o.fl. Dómarar meta skilvirkni parsins við að leysa þrautina, stíl þeirra og gangtegund og hugsanlegan frádrátt stiga vegna refsinga.

Þriðji hlutinn er gangtegundastjórnun. Þar sýnir parið hægt stökk, sem hægast á 2 m breiðri og 150 m langri braut og síðan fet til baka eins hratt og þau komast. Tíminn er mældur, lykilatriði er að vera á réttum gangi og hafa fulla stjórn á hestinum. Tímatafla er til um þetta verkefni sem gefur stig í samræmi við árangur.   

LH hefur hafið kynnigarherferð á TREC og eru aðildarfélögin hvött til að vera á sambandi við skrifstofuna eða Sigurð Ævarsson sem allra fyrst. Mörg félög eru komin af stað og áhugi er mikill. Þetta hentar hestinum okkar mjög vel og er frábær viðbót í fjölbreytta flóru hestamennskunnar í landinu. Kynningin tekur ca 1,5 klst og gefur fólki góða innsýn í þessa skemmtilegu og fjölskyduvænu íþrótt sem allir geta tekið þótt í. Námskeið fyrir verðandi dómara, leiðbeinendur og þá sem vilja kynna sér þetta enn betur, verður í lok febrúar eða byrjun mars á næsta ári.

Skrifstofa Lh
lh@lhhestar.is
514 4030