Tveir Íslandsmeistarar í gæðingaskeiði

06.07.2021

Þau leiðu mistök urðu á Íslandsmóti að útreikningar í Sportfeng gáfu ekki réttar niðurstöður fyrir fyrsta og annað sætið. Hið rétta er að Elvar Þormarsson og Fjalladís frá Fornusöndum og Konráð Valur Sveinsson og Tangó frá Litla-Garði voru hnífjafnir með einkunnina 8,25.

Þegar þessi staða kemur upp á mótum ber skv. reglum að láta keppendur ríða aukasprett til að skera úr um úrslit. Þar sem þessi villa uppgötvast ekki fyrr en að móti loknu hefur yfirdómnefnd Íslandsmóts tekið þá ákvörðun að krýna skuli þá báða Íslandsmeistara í gæðingaskeiði árið 2021. 

Stjórn Sportfengs biðst afsökunar á þessari villu í kerfinu, sérstaklega þá félaga Konráð og Elvar, og mun komast til botns í því hvað olli röngum útreikningi í gæðingaskeiði á Íslandsmóti. Þær vísbendingar sem forritarar Sportfengs hafa í augnablikinu benda ekki til þess að ástæða sé til að efast um aðrar niðurstöður í Sportfeng. Í LH Kappa appinu eru núna réttar niðurstöður í gæðingaskeiði.

Fyrirhugað er að veita Konráði og Tangó viðurkenningu fyrir Íslandsmeistaratitil í gæðingaskeiði við athöfn á Fjórðungsmóti Vesturlands.