U21-starfið komið á fulla ferð

23.01.2023
Hluti hópsins með þjálfurum

 

U21-landsliðshópur LH hittist á dögunum á æfingarhelgi í frábærri aðstöðu Eldhesta í Ölfusinu.

Helgin var vel nýtt í hin ýmsu atriði sem lúta að þjálfun og uppbyggingu keppnishesta liðsins og knapa þeirra.

Landsliðsþjálfari U21-hópsins, Hekla Katharína Kristinsdóttir hafði Sigurbjörn Bárðarson landsliðsþjálfara A-landsliðsins með sér alla helgina og fóru þau yfir málin með hverjum knapa og hesti fyrir sig.

„Ég fékk Sigurbjörn til liðs við mig til þess að vera með mér þegar ég myndi athuga stöðuna á hverjum knapa og hesti. Það var mikið gæfuspor fyrir mig að fá hann með mér. Hans reynsla og nærvera er eitthvað sem var ómetanlegt að fá“ sagði Hekla Katharína eftir helgina.

„Öll voru þau á góðum stað með hestana sína. Öll eru þau frábærlega ríðandi og hægt er að sjá mjög líklega kandidata fyrir HM.

Sigurbjörn hafði það á orði við mig að velja 5 fulltrúa úr þessum hóp yrði gríðarleg áskorun og það veit ég vel. Ásamt öllum þeim fyrir utan hópinn sem vilja sanna sig“ hélt hún áfram.

Fyrir utan verklega tíma í þjálfun hestanna voru haldnir fyrirlestrar fyrir hópinn.

Hinrik Sigurðsson hélt fyrirlestur um hugarþjálfun og það að vera best(ur) þegar á reynir. Hann ræddi við hópinn um hugarfarsþjálfun og mikilvægi hennar í undirbúningi íþróttafólks á öllum stigum fyrir sín verkefni og gaf hópnum ýmis verkfæri til þess að nýta sér og vinna með.

Sigurbjörn Bárðarson hélt í hádegishléinu á laugardeginum frábæran fyrirlestur um skeið og undirbúning skeiðs. Þar studdist hann við myndbrot úr þjálfunarmyndbandi sínu „Skeið undirbúningur-þjálfun“ ásamt því að hann fræddi knapana og jós úr viskubrunni sínum. Þetta var einstök stund og Sigurbjörn lagði svo sannarlega hjarta og sál á borðið. Hópurinn tók gríðarlega góðan þátt í fyrirlestrunum báðum og spurði margra spurninga.

Það er margt framundan hjá U21-hópnum í þjálfun, æfingum og keppni enda ætla þau sér öll að sanna sig fyrir sæti í landsliðshópnum sem verða fulltrúar Íslands á heimsmeistaramótinu í Hollandi á komandi sumri.