Vel heppnað FEIF dómaranámskeið

16.04.2012
Mynd: OÝS
Sportdómaranefnd FEIF í samstarfi við LH hélt dómaranámskeið fyrir alþjóðlega íþróttadómara dagana 13. og 14. apríl. Námskeiðið var vel sótt og það fjölmennasta sem haldið hefur verið hér á landi en rúmlega 60 dómarar úr Evrópu og USA sóttu námskeiðið, sem haldið var á félagssvæði Harðarmanna í Mosfellsbæ. Sportdómaranefnd FEIF í samstarfi við LH hélt dómaranámskeið fyrir alþjóðlega íþróttadómara dagana 13. og 14. apríl. Námskeiðið var vel sótt og það fjölmennasta sem haldið hefur verið hér á landi en rúmlega 60 dómarar úr Evrópu og USA sóttu námskeiðið, sem haldið var á félagssvæði Harðarmanna í Mosfellsbæ.
Aðstaðan var frábær fyrir námskeið sem þetta, þar sem reiðhöllin, keppnisvöllurinn og félagsheimilið nýttust vel og kvennadeild Harðar sá um matinn og heyrst hefur að þær hafi fengið 12 í einkunn frá skipuleggjendum námskeiðsins, fyrir matinn, þjónustuna og viðmótið.

Margir skemmtilegir og fróðlegir fyrirlestrar voru haldnir en meðal fyrirlesara voru Þorgeir Guðlaugsson, Lutz Lesener og Gunnar Reynisson. Þau Hulda G. Geirsdóttir og Einar Ragnarsson stýrðu umræðum og héldu utan um dagskrána.
Hulda G. Geirsdóttir er fulltrúi Íslands í sportdómaranefnd og sagði hún að fyrirlestrarnir hefðu verið fjölbreyttir, t.d. um siðfræði dómara hjá Þorgeiri en eftir fyrirlesturinn var þátttakendum skipt í hópa og þar tókust þar á við spurningar sem gætu fallið undir aðstæður sem reyna á siðferði dómara. Gunnar Reynisson fjallaði um greiningu gangtegunda, Lutz Lesener um dómara og samskiptamiðla og þar fram eftir götunum. Hulda sagði einnig að megin þema námskeiðsins hafi verið hvernig dómarar meta reiðmennsku.

Bent Rune Skulevold kynnti og sýndi hvernig meta skyldi gæði reiðmennsku. Nokkrir knapar sýndu hesta sína, bæði í upphitun og svo í sýningu á keppnisvellinum. Allt var tekið upp á myndband sem síðar var skoðað og rætt. Áhersla var lögð á að greina ýmsa þætti í reiðmennskunni og hvernig reiðmennskan hefur áhrif á heildarútkomu sýningarinnar.

Sigríður Björnsdóttir fór yfir skýrslu verkefnisins „Klár í keppni“, sem unnin var uppúr niðurstöðum verkefnisins eftir skoðun á keppnishrossum í ungmenna-, A- og B-flokki á LM 2011.

Að sögn þátttakenda tókst námskeiðið vel,  skipulag var gott, dagskrá áhugaverð og fóru allir ánægðir og ferskir til síns heima á laugardagskvöldið með nýjan fróðleik í farteskinu og ferskan blæ inn í dómgæslu sumarsins!

Nokkrar myndir frá námskeiðinu:

















- HKG