Velferð hrossa á útigangi

08.10.2012
Mynd: JE
Á vef MAST segir að því miður sé alltof algengt að hross gangi fram eftir hausti á uppbitnu landi og skjóllausu. Ef vel á að vera þurfa stóðhross sumarfriðað land til haust- og vetrarbeitar og ormalyf við beitarskipti.

Á vef MAST segir að því miður sé alltof algengt að hross gangi fram eftir hausti á uppbitnu landi og skjóllausu.  Ef vel á að vera þurfa stóðhross sumarfriðað land til haust- og vetrarbeitar og ormalyf við beitarskipti.  Reiðhestar þurfa sömuleiðis góða haustbeit, einkum þeir sem hafa verið í mikilli brúkun og nauðsynlegt er að fylgjast vel með holdafari þeirra. Æskilegt er að hestar nái 3,5 í holdastigun að hausti. 

Ef landið er ekki skjólgott frá náttúrunnar hendi þarf að koma upp kaplaskjóli. Mikilvægt er að slík mannvirki séu vönduð og brjóti vind úr öllum áttum. Bændasamtökin hafa gefið út leiðbeiningar um byggingu kaplaskjóla.

Mikilvægast er að hrossafjöldi sé í samræmi við landstærð og landgæði og hafa verður í huga að mjög hratt gengur á beit eftir að sprettu lýkur. Það borgar sig að byrja að gefa fyrr en síðar og missa ekki hross niður í holdum. Flokka þarf hross eftir fóðurþörfum  (t.d. þurfa mjólkandi hryssur tvöfalt meira viðhaldafóður en geldhross) og varast að hafa hrossahópa of stóra. Þá er minni hætta á að einstaka hross verði afétin. Sömuleiðis ber að varast að hross verði of feit (holdastig 4,5 eða meira) en æskilegt er að nota gjafatímann til þyngdarstjórnunar. 

Hestamönnum er bent á að kynna sér vel reglugerð um aðbúnað, umhirðu og heilbrigðiseftirlit hrossa nr. 160/2006 og nýta holdstigun við eftirlit með hrossum.