Velheppnuð afmælishátíð

21.12.2009
Afrekshópurinn kemur ríðandi eftir Fríkirkjuveginum í lögreglufylgd. Ljósmynd:MG

Landssamband hestamannafélaga hélt uppá 60 ára afmælið sitt síðastliðinn föstudag, 18.des. Hátíðin hófst á fánareið unglinga og ungmenna úr afrekshópi LH sem riðu frá Sóleyjargötunni, um Fríkirkjuveginn og að IÐNÓ í lögreglufylgd. Landssamband hestamannafélaga hélt uppá 60 ára afmælið sitt síðastliðinn föstudag, 18.des. Hátíðin hófst á fánareið unglinga og ungmenna úr afrekshópi LH sem riðu frá Sóleyjargötunni, um Fríkirkjuveginn og að IÐNÓ í lögreglufylgd. Fánareiðin tókst mjög vel og setti mikinn svip á hátíðina. Að henni lokinni hófst hátíðardagskrá í IÐNÓ sem var stýrt af mikilli fagmennsku Friðriks Pálssonar fundarstjóra. Gunnar Eyjólfsson leikari reið á vaðið og flutti ljóðið Fákar eftir Einar Benediktsson.
Herra Ólafur E. Rafnsson, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands veitti þeim Kára Arnórssyni og Rosemarie Þorleifsdóttur gullmerki ÍSÍ sem er eingöngu veitt þeim sem starfað hafa í áraraðir af heilindum fyrir íþróttahreyfinguna. LH óskar þeim Kára og Rosemarie innilega til hamingju með gullmerkin.
Kári Arnórsson sagði frá sögu LH í 60 ár, Þorvaldur Kristjánsson flutti erindi um íslenska hestinn og vísindasamfélagið, Ásta Möller sagði frá nýútkominni skýrslu um „markaðssetningu íslenska hestsins erlendis“, Benedikt Erlingsson leikari sagði frá hvernig íslenski hesturinn tengdist listum og menningu landsins, Trausti Þór Guðmundsson flutti erindi Pétur Behrens um sögu tamninga og reiðmennsku á Íslandi og Hjörný Snorradóttir sagði stuttlega frá verkefni sínu við Háskóla Íslands um stefnumótun Landsmóta. Dísella Lárusdóttir braut dagskránna upp og flutti nokkur vel valin lög í tilefni dagsins.
Auk þess flutti Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningamálaráðherra ávarp á ráðstefnunni, óskaði hestamönnum til hamingju með daginn og lagði áherslu á mikilvægi íslenska hestsins. Hátíðin tókst í alla staði mjög vel, var fræðandi og skemmtileg, sannkölluð afmælisveisla.

Myndir frá hátíðinni er að finna á heimasíðunni undir Ýmsilegt - Ljósmyndir eða með því að smella hér.