Vilt þú starfa í nefndum LH?

24.11.2022

Að loknu hverju landsþingi skipar stjórn Landssambands hestamannafélaga í nefndir sambandsins til tveggja ára. Nefndarstörf eru undirstaðan í öllu starfi LH og mikilvægt að fá öfluga sjálfboðaliða sem eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum.

Ef þú ert tilbúin/n til að starfa í nefnd hjá LH þá sækir þú um á sértöku umsóknareyðublaði. 

Frestur til að gefa kost á sér í nefndastörf LH er fimmtudagur 8. desember.

Nefndirnar sem um ræðir eru:

Átakshópur um útbreiðslu, ásýnd og nýliðun í hestamennsku
Hópnum er m.a. ætlað að vinna að stefnumarkandi tillögum um leiðir sem færar eru til að bæta ásýnd hestamennskunnar og vinna markvisst að aukinni nýliðun í hestamennsku.

Keppnisnefnd
Keppnisnefnd fjallar um mál sem stjórn LH vísar til hennar en hefur að öðru leyti frumkvæðisrétt að málefnum sem undir hana heyra. Hlutverk nefndarinnar er að endurskoða reglugerðir LH er varðar keppni og koma með tillögur að breytingum ef þörf er á. Nefndin skal jafnan hafa hliðsjón af reglum ÍSÍ og öðrum reglugerðum sem LH hefur samþykkt. Þá skal nefndin sjá um að samþykktir landsþinga falli að lögum og reglum LH.

Laganefnd
Hlutverk laganefndar er að sjá til þess að breytingar á lögum og reglum sem samþykktar eru á FEIF-þingi og landsþingi LH séu rétt færð inn í lög og reglur LH.  Laganefnd skal fara yfir tillögur til landsþings og nefndin er stjórn til halds og trausts þegar kemur að túlkun laga og reglna FEIF og LH.

Landsliðs- og afreksnefnd
Hlutverk landsliðs- og afreksnefndar er að móta umgjörð um afreksmál LH og halda utan um landsliðshópa og hæfileikamótun LH. Nefndin er einnig fjáröflunarnefnd fyrir afreksstarf LH. Nefndin skipuleggur landsliðsferðir og fylgir eftir landsliðum Íslands í hestaíþróttum bæði á HM og NM.

Mannvirkjanefnd
Hlutverk mannvirkjanefndar er að veita ráðgjöf um gerð mannvirkja sem notuð eru við hestaíþróttir og hestamennsku almenn, m.a. keppnis- og æfingavelli, reiðvegi og reiðhallir. Einnig ber nefndinni að vera stjórn innan handar varðandi lista yfir lágmarkskröfur sem gerðar eru til mótshaldara Íslandsmóta og Landsmóta hvað varðar aðstæður á mótssvæði.

Menntanefnd
Hlutverk menntanefndar er m.a. að fylgja eftir þjálfarastigum LH í samstarfi við Háskólann á Hólum. Nefndin heldur utan um endurmenntunarnámskeið fyrir reiðkennara og staðfestir virka reiðkennara til FEIF. 

Tölvunefnd
Hlutverk tölvunefndar er m.a að halda utan um SportFeng og LH Kappa-appið, þróun þessara kerfa sem og námskeiðahald vegna SportFengs.

Úrskurðar- og aganefnd
Úrskurðar- og aganefnd  LH skal skipuð þremur aðalmönnum og tveimur til vara. Formaður skal vera löglærður. Úrskurðar- og aganefnd úrskurðar um brot á lögum, reglugerðum og reglum LH og ákvarðar viðurlög, í samræmi við reglur Úrskurðar- og aganefndar. Einnig er heimilt að kæra til Úrskurðar- og aganefndar ákvarðanir yfirdómnefndar, að því marki sem þær eru ekki háðar endanlegu ákvörðunarvaldi Yfirdómnefndar. Þá getur Úrskurðar- og aganefnd veitt keppendum og starfsmönnum móta áminningar og dæmt keppendur í keppnisbann, í samræmi við reglur um Úrskurðar- og aganefnd sem stjórn LH setur.

Æskulýðsnefnd
Hlutverk Æskulýðsnefndar er að efla fræðslu um æskulýðsmál og gæta hagsmuna æskunnar í íþróttinni, auka fræðslu æskulýðsfulltrúa um allt land og styðja við þá í starfi. Nefndin tilnefnir fulltrúa, í samstarfi við landsliðsnefnd, sem fylgir ungmennum á HM, NM og önnur stórmót. Nefndin sér einnig um val þátttakenda á FEIF Youth Cup og Youth Camp.

Öryggisnefnd
Verkefni öryggisnefndar er að stuðla að öryggi á reiðvegum og annars staðar þar sem hestamennska er stunduð. Nefndin sér um að fræða hinn almenna hestamann um hvernig hægt er að bæta öryggi í nærumhverfi.

Ef þú ert tilbúin til að starfa í nefnd hjá LH þá sækir þú um með því að smella hér.