Vinnuhelgi stjórnar og starfsfólks

15.01.2018

Um liðna helgi héldu stjórnarmenn og starfsfólk LH austur í Hveragerði. Það hefur verið árlegt verkefni að taka eina helgi í upphafi tímabils, til skipulags og ráðagerða. 

Fundað var frá kl. 16 á föstudeginum og allan laugardaginn en dagskráin var fjölbreytt. 

  • Föstudagurinn fór í magnaða fræðslu frá Eyþóri Eðvarðssyni hjá Þekkingarmiðlun. Fræðslan var í hálfgerðu námskeiðsformi þar sem miklar umræður fara fram og hópurinn rýnir verkin sín og verkefni og kallast Aðgerðamótun en það er aðferð sem leggur áherslu á uppbyggilegar og opnar umræður um þau atriði sem mestu máli skipta að mati þátttakenda. Með skapandi greiningaraðferðum er rýnt í innviði vinnustaðarins, styrkleika hans og það sem betur má fara og dregnar fram allar þær spurningar sem þarf að spyrja.
    Í framhaldi af þessari rýni eru málefnin skilgreind og verkefnahópar og verkefnastjórar skilgreindir. Hver verkefnhópur ræðir um og mótar aðgerðir.
    Ekki eru nein takmörk á því hvaða atriði eru tekin fyrir en þessi atriði komu m.a. upp: Samskipti, keppinautar, vinnuaðstaða, breytingar, sóknarfæri, starfsánægja, stjórnun, mórall, ímynd, stolt, framtíð, fortíð og nútíð. Hver erum við og hvernig viljum við vera sem hópur?
      • Skýrar vinnureglur um hvernig unnið verður til að tryggja þátttöku af heilindum og einlægni.
      • Eyþór Eðvarðsson stýrði ferlinu.
      • Virk þátttaka allra þátttakenda í öllu ferlinu. 
      • Tjáning: Menn tjáðu sig bæði um þau atriði sem voru jákvæð og minna jákvæð í orði og á skapandi hátt.
      • Umræður í litlum hópum.
      • Stýrð verkefnavinna þar sem farið var í gegnum nokkur stig: Tjáning, skilgreining, lausnir, aðgerðir.
      • Jákvætt andrúmsloft.

  • Á laugardagsmorgninum hófst dagurinn á stjórnarfundi þar sem nokkur málefni voru á dagskrá. Eftir hádegi var svo farið í hópavinnu þar sem fjallað var ítarlega um niðurstöður vinnunnar frá því kvöldið áður og fleiri mál. Þetta var mjög góð vinna og gekk vel. 

  • Eftir að vinnu lauk um kl. 16:30 á laugardeginum, var farið í stórskemmtilega heimsókn til Eldhesta. 

  • Um kvöldið borðuðum við á HVER RESTAURANT á Hótel Örk og er sannarlega hægt að mæla með þeim stað.