Vinstri-grænir svara spurningum LH

24.04.2009
Fulltrúar Vinstri grænna fjölmenntu á fund LH. Í miðröðinni eru Kobrún Halldórsdóttir, Hrefna Sigurjónsdóttir, Gísli B. Björnsson, Lena M. Rist, og Árni Þór Sigfússon.
Landssamband hestamannafélaga boðaði til fundar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 20. apríl þar sem mættu fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til þings. Haraldur Þórarinsson, formaðu LH, kynnti þingmönnum tilgang og markmið sambandsins og skýrði í megindráttum starfssemi þess. Landssamband hestamannafélaga boðaði til fundar í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 20. apríl þar sem mættu fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem bjóða fram til þings. Haraldur Þórarinsson, formaðu LH, kynnti þingmönnum tilgang og markmið sambandsins og skýrði í megindráttum starfssemi þess.

Allir stjórnmálaflokkarnir höfðu áður fengið sendan spurningalista með sjö spurningum frá LH, sem varða hagsmuni hestamanna. Óskað var eftir svörum við öllum spurningunum. Á fundinum fór Haraldur yfir spurningalistann og svaraði fyrirspurnum frá frambjóðendum, sem sýndu málinum mikinn áhuga. Svör flokkanna verða birt hér á heimasíðu LH um leið og þau berast.

Hér með birtast svör frá Vinstri – grænum:

INNGANGUR:

Spurningar til stjórnmálaflokka frá Landsambandi hestamannafélaga fyrir alþingiskosningarnar 2009.

Landssamband hestamannafélaga (LH) er þriðja stærsta sérsambandið innan ÍSÍ.  Reynslan sýnir að um þrír til fjórir aðilar fylgja hverjum þeim sem skráður er í félagi í hestamannafélag.  Félagar í LH eru nú um 12.000 sem þýðir að um 35.-40.000 manns stundi hestamennsku reglulega hérlendis.
Landsmót hestamanna er einstakur íþróttaviðburður og sá eini á Íslandi sem dregur að sér hátt í 15 þúsund gesti, þar af er um fjórðungur erlendir gestir sem sækja Ísland gagngert heim vegna viðburðarins.  Hestamennska er ein fjölskylduvænasta íþrótt sem um getur.  Í hestamennsku þekkist ekki kynslóðabil, allir geta stundað hestamennsku saman.  Allir finna eitthvað við sitt hæfi og getu; íþróttakeppni, gæðingakeppni, útreiðar, náttúruskoðun eða að eiga rólega stund með hestum sínum eftir amstur dagsins.

Í aðdraganda kosninga vorið 2009 fer stjórn Landsambands hestamanna fram á það við þá sem bjóða fram lista til alþingis að þeir svari nokkrum spurningum er varða hagsmuni hestamanna.


Svör Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

1. Er þinn flokkur tilbúinn  til þess að tryggja í vegalögum að reiðvegir séu flokkaðir þannig að réttur hestamanna sé tryggður á ákveðnum (götum) vegum og þá um leið umferð mótorknúinna ökutækja bönnuð nema sem um getur í 5. gr. a. 1.mgr. umferðalaga?

Greinargerð: Fallið hafa dómar sem eru þess eðlis að þeir tryggja ekki umferð og öryggi hestamanna á þeim vegum sem þeim eru ætlaðir sér í lagi er átt við akstur vélknúinna ökutækja einkum torfæruhjóla.

Svar VG:
Já, það er brýnt að breyta vegalögunum á þann veg að réttur hestamanna sé tryggður á reiðvegum.

2. Árlega skapast gjaldeyristekjur upp á 12 til 14 milljarða króna í kringum íslenska hestinn og hestatengda ferðaþjónustu.  Er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir auknu fé til reiðvegamála t.d. ½ til 1% af þeim gjaldreyri sem hestamennskan skapar?

Greinargerð:  Á undanförnum árum hefur fé til vegamála aukist stórlega og ber að þakka það.  Hins vegar hefur þeim sem stunda hestamennsku fjölgað stórlega á undanförnum árum og þar með þörfin fyrir reiðvegi einnig.  Á síðasta ári var sótt um fjármagn að upphæð 300 milljónir til reiðveganefndar LH en einungis er til ráðstöfunnar á samgönguáætlun 2007 til 2010  um 60 milljónir á ári.  Dugir það fé vart til viðhalds núverandi reiðvega hvað þá nýlagna.

Svar VG:
Sú hægristefna sem fylgt hefur verið undanfarin mörg ár, skilur landið eftir í efnahagslegum rústum.  Við þær aðstæður getur enginn ábyrgur stjórnmálaflokkur gefið loforð sem ekki er unnt að standa við.  Það er hins vegar okkar vilji að Vegagerðin tryggi svipað hlutfall til reiðvegamála og verið hefur undanfarin ár.

3. Telur þinn flokkur ástæðu til að færa reiðvegi frá umferðarþungum akvegum?

Greinargerð:  Í dag liggja flestir reiðvegir samsíða þungum umferðaræðum bæði innan þéttbýlis sem utan.  Á þessum reiðvegum er oft mikil umferð ríðandi fólks einkum í næsta nágrenni við þéttbýlið.

Svar VG:
Já, það á að vera meginstefnan að aðgreina slíka vegi sem mest.

4. Er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir því að hestaíþróttir verði viðurkenndar sem sérstök námsbraut í framhaldsskólakerfinu, þannig að þeir sem ljúka þar námi öðlist réttindi til t.d. tamninga, þjálfunar og að taka að sér og leiða hópa í ferðamennsku á hestum ?

Greinargerð:  LH bindur miklar vonir við samstarf  sitt og Fjölbrautaskóla Suðurlands um rekstur tveggja ára námsbrautar sem menntamálaráðherra  heimilaði, en þar er  reynt að finna grundvöll til reksturs tveggja ára almennrar hestabrautar þar sem nemenur útskrifast sem hestasveinar eða tamningarsveinar.  Gengur rekstur þessarar brautar vel og lofar góðu.

Svar VG:
Þetta er mjög jákvætt mál sem við viljum skoða frekar í samvinnu við LH, Hólaskóla, ráðuneyti menntamála og landbúnaðar, Félag tamningamanna o.fl. Það er í anda menntastefnu VG að auka vægi og möguleika í verklegu námi og fellur þetta einmitt vel að þeirra stefnumörkun.
Nú er mikil vöntun á fólki til starfa tengdum íslenska hestinum. Finnst okkur þetta  því vera í anda þess sem mjög er til umræðu í menntamálum þ.e. að koma á verklegu námi þar sem ekki þarf að búa til eftirspurnina.  Þá má minna á að íslenski hesturinn tengist mjög menningu okkar Íslendinga og er þetta því einnig sögu og menningartengt nám.

5. Er þinn flokkur tilbúinn eftir kosningar til að skoða skattalegt umhverfi hestamennskunnar með það að markmiði að minnka kostnað þeirra sem stunda hestamennsku?

Greinargerð:  Mikil óánægja er innan hestahreyfingarinnar með misjafna álagningu fasteignagjalda á hesthús þar sem þau eru ýmist flokkuð í A eða C flokk, þ.e. eftir því hvort þau standa á lögbýli eða innan þéttbýlis.  Stjórn LH telur að það gæti verið til bóta að lækka skatta á vissum þáttum tengdum  hestamennsku og reyna þannig að ná niður kostnaði og um leið að gera viðskipti tengdum hestamennskunni sýnilegri.  Lækkun kostnaðar í greininni eykur frekar á nýliðun í greininni og er þá sérstaklega horft til fjölskyldufólks.

Svar VG:
Það er eðlilegt og sjálfsagt að skoða misræmi í skattalegu umhverfi og gera þá nauðsynlegar ráðstafanir til að samræma það þar sem það á við.  Svigrúm til skattalækkana er augljóslega mjög takmarkað en full ástæða er til að leita allra leiða til að draga úr kostnaði í greininni.


6. Er þinn flokkur tilbúinn til að beita sér fyrir lagabreytingu þannig að allir þeir sem eiga og rækta íslenska hestinn sitji við sama borð þegar kemur að ákvarðanatöku m.a. um ræktunarmarkmið íslenska hestsins og á hvaða rannsóknir tengdar íslenska hestinum skuli lagðar áherslur á, á hverjum tíma?

Greinargerð:  Í dag er þetta þannig að í lögum er kveðið á um að þú verðir að vera lögbýlingur til að geta setið í Fagráði en þar eru ákvarðanir teknar um ræktunarmarkmið og  þróunarstarf í hrossarækt.  Í dag eru  60 - 70% þeirra sem stunda hrossarækt ekki lögbýlingar heldur búa í þéttbýli og finnst félögum innan LH það algerlega ótækt að mismuna fólki með þessum hætti þar sem það er heimilt að halda hestinn í þéttbýli.

Svar VG:
Já, Vinstri græn eru reiðubúin að skoða lagabreytingar þannig að allir sem rækta íslenska hestinn eigi sama rétt varðandi ræktunarmarkmið.  Það er réttlætismál.

7. Er þinn flokkur tilbúinn að beita sér fyrir því að LH njóti sömu meðferðar af hálfu ríkisvaldsins og t.d. önnur félagasamtök sem ríkið styrkir til mótahalds um landið?

Greinargerð:  Við rekstur síðustu þriggja landsmóta hefur verið greitt til svæða og í löggæslukostnað milli 40 - 50 milljónir sem er að mati okkar alltof  há upphæð þar sem við þurfum að skattleggja okkar félagsmenn og aðdáendur íslenska hestsins til að halda þessar fjölskyldu og íþróttahátíðir sem landsmót eru og eru einnig snar þáttur í menningu okkar.  Á sama tíma eru haldnir aðrir íþróttaviðburðir þar sem allur undirbúningur mótssvæða er greiddur af ríki og sveitarfélögum og öllum boðið frítt inn.           

Svar VG:
Vinstrihreyfingin – grænt framboð berst fyrir jöfnuði og réttlæti. Það er eðlilegt að aðkoma opinberra aðila að sambærilegum viðburðum sé hin sama. Flokkurinn er reiðubúinn að skoða þetta mál.