YFIRLÝSING FRÁ LH VEGNA UMRÆÐU UM FASTEIGNARGJÖLD Á HESTAHÚS

07.02.2012
Frá árinu 2007 hefur Landsamband hestamannafélaga reynt að fá Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála til að binda enda á það óréttlæti að flokka hestahús í mismunandi flokka eftir því hvort þau standa á lögbýlum eða í þéttbýlli. . Frá árinu 2007 hefur Landsamband hestamannafélaga reynt að fá Samband íslenskra sveitarfélaga og ráðherra sveitarstjórnarmála til að binda enda á það óréttlæti að flokka hestahús í mismunandi flokka eftir því hvort þau standa á lögbýlum eða í þéttbýlli. .

Hafa báðir aðilar tekið vel í að leiðrétta þessa mismunun, breyta lögum og eyða um leið þeirri óvissu sem uppi var um heimild sveitarfélaga til að túlka lög þannig að hægt væri að leggja fasteignagjöld á hesthús eins og um atvinnuhúsnæði væri að ræða.  Þá er einnig óvissa um að þessi flokkun eftir staðsetningu hesthúsa standist jafnræðisreglu stjórnarskrá lýðveldisins þar sem verið er að mismuna einstaklingum eftir því hvar þeir búa á landinu.
Ekkert hefur gerst í þessu réttlætismáli að hálfu þessara stjórnvalda sem bera ábyrgð á þessari mismunun þrátt fyrir loforð um lagfæringar.
Árið 2010 fól stjórn Landsambands hestamannafélaga lögfræðingi að kæra málið fyrir yfirfasteignamatsnefnd til að fá álit hennar á þessari flokkun.  Komst hún að þeirri niðurstöðu að sveitarfélögunum væri þetta heimilt en tók ekki afstöðu til þess hvort þessi flokkun bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar eða stríddi gegn markmiðum samkeppnislaga.  Í framhaldi af þessum úrskurði óskaði Reykjavíkurborg eftir því við Alþingi að það breytti lögunum um  tekjustofna sveitarfélaga.
Leggur Reykjavíkurborg til að hestahús þaðan sem ekki er rekin atvinnustarfsemi verði flokkuð í a. flokk eins og t.d. íbúðar og frístundarhúsnæði.
Fagnar stjórn Landsambands hestamannafélaga þessu frumkvæði Reykjavíkurborgar til breytinga á lögum um tekjustofna sveitarfélaga en er ósammála þeim texta sem Reykjavíkurborg leggur til þar sem hann felur í sér mismunun eftir því hvar menn búa á landinu.
Stjórn Landsambands hestamannafélaga leggur til og áréttar að öll hestahús hvar sem þau standa á landinu flokkist í a. flokk með m.a. íbúðar- og frístundahúsnæði.
Hestamannafélögin og LH eru aðilar að Íþrótta og Ólympíusambandi Íslands og eru þar þriðja fjölmennasta sérsambandið með rúmlega tíu þúsund félagsmenn.  Hestaíþróttamenn verða að byggja sín hús sjálfir og reka þau fyrir eigin reikning á meðan ríki og sveitarfélög byggja yfir flestar aðrar íþróttagreinar og niðurgreiða svo oft aðstöðu til þjálfunar og iðkunar þessara íþróttagreina.
Með þessum úrskurði yfirfasteignamatsnefndar sitja eigendur hestahúsa í þeim sveitarfélögum sem beita þessari túlkun á lögum um tekjustofna í þeirri óvæntu stöðu að sitja uppi með gjörbreyttar forsendur fyrir stundun sinnar íþróttar þar sem margir geta ekki, átt, leigt eða selt sín hesthús.
Þessa stöðu getur Landsamband hestamannafélaga ekki sætt sig við og skorar á Alþingi að tryggja stöðu hestaíþróttarinnar og breyta lögunum.