08.08.2009
Jens Einarsson:
Yfirlitssýningum kynbótahrossa er lokið á HM09. Allmörg hross bættu einkunn sína dálítið. Bræðurnir frá Dal í
Danmörku, synir Svöni frá Neðra-Ási, eru enn á toppnum og Kvika frá Forstwald er þriðja efsta kynbótahrossið og efst hryssna.
Magnús frá Dal er hæstur bæði í aðaleinkunn og fyrir hæfileika. Knapi á honum var Agnar Snorri Stefánsson.
08.08.2009
Jens Einarsson:
Þórarinn Eymundsson á Krafti frá Bringu fékk sárabót þegar hann komst í B úrslit í tölti eftir úrfall annarra
keppenda. Hann nýtti tækifærið vel og vann slaginn. Hann mun því keppa í A úrslitum á morgun og er til alls líklegur. Yoni Blom,
Hollandi á Týrson frá Saringhof vann B úrslit í slaktaumatölti og þar með farmiðann upp í toppslaginn.
08.08.2009
Jens Einarsson:
Tveir hestar bættust í hóp vekringa undir 23,0 sekúndum í rigningunni í dag. Malu Logan, Danmörku, á Skyggni frá Stóru-Ökrum,
Galsasyni frá Sauðárkróki, fór á 22,28 sekúndum og skaust upp í sjötta sæti. Thomas Haag, Sviss, á Risa frá Schloß
Neubronn hljóp á 22.79 sekúndum og er í ellefta sæti.
08.08.2009
Jens Einarsson
Veðurspáin frá því í gær rættist og það rúmlega. Þrumur og eldingar – og þvílík úrhellis
rigning að annað eins hafa Íslendingar varla séð. Jafnvel ekki þeir sem aldir eru upp á Suð-Austurlandi. Á nokkrum mínútum
flóði mótssvæðið á HM í vatni. Lækir runnu eftir keppnisvöllum og áin, sem var yndisleg lítil spræna í gær,
varð að mórauðu fljóti á svipstundu.
08.08.2009
Jens Einarsson:
Stian Petersen og Tindur frá Varmalæk náðu sér á strik í B úrslitum í fimmgangi og stóðu uppi í lokin með farmiða
yfir í lokaslaginn. Íslenski keppandinn, Haukur Tryggvason á Baltasar frá Freyelholf var ekki nógu öruggur með sig og hafnaði í níunda
sæti.
08.08.2009
Jens Einarsson:
Þórði Þorgeirssyni hefur verið vikið úr íslenska landsliðinu fyrir brot á reglum um notkun áfengis. Hann sat ekki Kjarna frá
Auðsholtshjáleigu í yfirliti stóðhesta í dag, en Sigurður V. Matthíasson tók hans stað. Einar Öder Magnússon,
liðstjóri, segir að þetta hafi verið þrautalending. Þórður hafi ekki virt reglur um áfengisbann. Þær séu skýrar.
07.08.2009
Jens Einarsson:
Fimm hestar hlupu undir 22,0 sekúndum í tveimur fyrri sprettum í 250 m skeiði á HM09. Sjö til viðbótar fóru undir 23 sekúndum. Sem sagt:
Tólf hestar undir 23 sekúndum á sömu kappreiðunum. Ótrúlegur árangur. Fjórir af fimm knöpum á fljótustu hestunum eru
Íslendingar.
07.08.2009
Jens Einarsson:
Úrslit í fjórgangi fóru að mestu eftir fyrirframgefinni uppskrift. Lena Trappe er í efsta sæti á Vaski frá Lindenhof með 7,80.
Ásta Bjarnadóttir heldur áfram að koma á óvart á Dynjanda frá Dalvík. Skaust í annað sætið eins og ekkert væri
með 7,60 í einkunn. Lucia Koch á Jarli frá Miðkrika er í því þriðja með 7,57.
06.08.2009
Jens Einarsson:
Valdimar Bergsstað heldur uppi heiðri íslendinga í gæðingaskeiðinu. Hann er sjöundi í röð allra keppenda með 7,38 í einkunn.
Heimsmeistari ungmenna í greininni og efstur íslensku knapanna. Frábær árngur. Sprettirnir voru báðir heilir og sá seinni betri. Alveg eins og
á að gera það. Teitur Árnason á Glaði frá Brattholti er í öðru sæti í ungmennaflokki og þrettándi í
röð allra keppenda.
06.08.2009
Jens Einarsson:
Enginn íslenskur kepppandi er í B úrslitum í tölti. Þó er líklegt að einhver dragi sig út úr úrslitunum. Til dæmis
Lena Trappe ef allt gengur upp í fjórgangi, þar sem hún þykir líkleg í toppbaráttuna. Þá er næstur inn Haukur Tryggvason
á Baltasar frá Freyelhof, sem fékk 6,80 í forkeppni og ellefta sætið. Og þarnæstur Þórarinn Eymundsson á Krafti með 6,73.