Vilja ekki raska aldursflokka skiptingu

Keppnisnefnd LH er á móti þeirri tillögu Fáksmanna að keppendur í ungmennaflokki fái að keppa í meistaraflokki; keppa upp fyrir sig eins og sagt er. Telur nefndin að það skapi fleiri vandamál en það leysir.

Skógarhólanefnd verði endurreist

Hestamannafélagið Hörður vill endurreisa Skógarhólanefnd og hefja viðræður við Þingvallanefnd um áframhald á þeirri þjónustu sem hestamenn hafa notið á Skógarhólum. Tillaga þess efnis liggur fyrir 56. Landsþingi LH.

Átta ræktunarbú tilnefnd

Átta hrossaræktarbú eru tilnefnd til ræktunarverðlauna ársins 2008. Búin eru: Auðsholtshjáleiga, Fet, Hákot, Ketilsstaðir á Völlum, Lundar II, Skipaskagi, Strandarhjáleiga og Þúfur/Stangarholt. Eitt þessar búa hlýtur verðlaunin sem verða afhent á uppskeruhátíð hestamanna á Broadway.

Viðsnúningur í gæðahlutföllum

Frá 1990 hefur orðið viðsnúningur í hlutföllum einkunna á jöðrum dómskalans. Hlutfall hrossa sem fengu 8,0 eða meira í aðaleinkunn árið 1990 var 6,5%. Á þessu ári fengu 36,8% sýndra kynbótahrossa 8,0 eða hærra í aðaleinkunn.

Heilbrigði íslenska hestsins

Matvælastofnun heldur fræðslufund um heilbrigði íslenska hestsins þriðjudaginn 27. janúar 2009 kl. 15:00-16:00. Á fundinum verða teknir fyrir þættir sem ógnað geta heilbrigði og velferð hrossastofnsins og fjallað um viðbrögð við hugsanlegri vá. Þá verða nýleg dæmi um salmonellusýkingu og brot á dýraverndarlögum til umfjöllunar.

Íþróttamenn ársins hjá LH

Sérsambönd innan ÍSÍ tilnefna nú eitt af öðru kandídata sína til íþróttamanns ársins. Landssamband hestamannafélaga hefur valið tvo knapa, mann og konu, sem sína íþróttamenn. Þeir verða kynntir föstudaginn 19. desember klukkan 16.00 í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.

Salmonella magnast upp við kjöraðstæður

Fyrir tæpum tveimur áratugum drápust á annað hundrað hrossa úr salmonellu sýkingu í Landeyjum og víðar á Suðurlandi. Aðallega fölold og trippi. Þar er talsvert um vatnsból sem eru tjarnir sem grafnar eru í landið.

Sýkingin í lokuðum vatnsbólum

Gunnar Örn Guðmundsson, héraðsdýralæknir, sagði í samtali við LH-Hesta að enginn vafi léki lengur á því að um salmonellu sýkingu væri að ræða í öllum hrossunum sem veikst hafa. Hann segir flest benda til þess að sýkingin hafi verið til staðar í litlum tjörnum í beitarhólfinu.

Sorgleg jól hestamanna í Mosfellsbæ

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa nokkrir hestamenn í Mosfellsbæ orðið fyrir umtalsverðum skaða nú um hátíðirnar. Samkvæmt síðustu fréttum hafa nítján reiðhross drepist af völdum salmonellu sýkingar. Þau voru í hópi fjörutíu hrossa sem voru í hagagöngu í hólfi við Esjurætur.

Stefnt að hreinu hesthúsahverfi fyrir áramót

Stefnt er að því að flytja þau hross, sem talin eru að muni lifa af salmonellu sýkinguna, burt úr hesthúsahverfinu í Mosfellsbæ sem allra fyrst. Yfir tuttugu af fjörutíu sem veiktust hafa drepist og í gær voru ein fjögur sem talið var að myndu ekki lifa af.