08.08.2008
Þrír íslenskir keppendur eru í A úrslitum í fimmgangi unglinga og ungmenna á NM2008. Teitur Árnason á Hraunari frá Kirkjuferjuhjáleigu er efstur með 6,27. Teitur er einn af efnilegri ungu knöpunum.
08.08.2008
Guðmundur Einarsson náði bestum tíma í 250 m skeiði í fyrri umferð á NM2008. Sproti hljóp báða sprettina undir 23 sekúndum af miklu öryggi. Annan bestan tímann fékk Malu Logan á Skyggni frá Stóru- Ökrum. Hann hljóp einsamall í fyrsta spretti og fór þá á 23,36 sekúndum. Hann lá ekki seinni sprettinn. Malu keppir fyrir Danmörku.
07.08.2008
Jóhann Skúlason á Kiljan frá Blesastöðum 1A er efstur í tölti fullorðinna á NM2008 eftir forkeppni. Hann keppir fyrir Ísland. Jóhann reið prógrammið fagmennlega eins og hans er háttur. Hann reið nú við hringamél í stað stangaméla í fjórganginum. Hæga töltið var ekki eins bragðmikið og í fjórganginum en eigi að síður mjög gott.
07.08.2008
Íslandsmót fullorðinna 2009 verður haldið hjá Létti á Akureyri. Íslandsmót barna og unglinga 2009 verður haldið hjá Herði í Mosfellsbæ. Íslandsmót fullorðinna 2010 verður haldið hjá Sörla í Hafnarfirði. Íslandsmót barna og unglinga 2010 verður haldið hjá Þyti í Húnaþingi.
07.08.2008
Hekla Katharina Kristinsdóttir á Gusti frá Kjarri er efst í tölti ungmenna á NM2008 eftir forkeppni. Hún reið fumlaust á toppinn þegar nokkuð var áliðið á keppnina. Rétt á hæla henni er annar íslenskur keppandi, Edda Rún Guðmundsdóttir á Sporði frá Höskuldsstöðum með 6,57. Það er því mjótt á munum og stefnir í tvísýn úrslit.
07.08.2008
Eva-Karin Bengtsson á Kyndli frá Hellulandi er með afgerandi yfirburði í slaktaumtölti fullorðinna á NM2008. Hún er með 7,80 í einkunn en næsti keppandi með 7,07. Hún keppir fyrir Svíþjóð. Kyndill er undan Andvara frá Ey og Dvöl frá Syðri-Brekkum, Viðarsdóttur frá Viðvík.
07.08.2008
Valdimar Bergstað er fimmti inn í A úrslit í slaktaumatölti unglinga og ungmenna, en þeim flokkum er steypt saman í þessari grein.
Valdimar reið hestinum Gauk frá Kílhrauni. Teitur Árnason og Ragnheiður Hallgrímsdóttir eru í níunda og tíunda sæti.
07.08.2008
Norðurlandamótið í hestaíþróttum, NM2008, var sett í gær, miðvikudag. Mótið er haldið í Seljord í Noregi, en þar hafa áður verið haldin Norðurlandamót og heimsmeistaramót í hestaíþróttum.
07.08.2008
Bjarnleifur Bjarnleifsson, formaður Gusts í Kópavogi, mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formannssetu. Aðalfundur félagsins verður haldinn í Glaðheimum fimmtudaginn 27. nóvember klukkan 20.00.
07.08.2008
Guðmundur Einarsson á Sprota frá Sjávarborg hafði algjöra yfirburði í gæðingaskeiði fullorðinna á NM2008 í Seljord. Hann fékk 8,71 í einkunn. Hann keppir fyrir Svíþjóð. Næsti keppandi, Sigurður Óskarsson á Kolbeini frá Þóroddsstöðum, fékk 8,04 í einkunn.